Djúpivogur: Tjarnarklukka friðlýst

Búsvæði tjarnaklukku á Hálsum við Djúpavog hefur verið friðlýst.  Umhverfisráðherra og sveitarstjóri Djúpavogshrepps undirrituðu friðlýsinguna nýverið.

innri_halsar.jpgGauti Jóhannesson sveitarstjóri Djúpavogshrepps og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra undirrituðu friðlýsinguna síðastliðinn fimmtudag 10. febrúar, með samþykki sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og landeigenda jarðarinnar Strýtu við Berufjörð.   Samhliða friðlýsingunni gerði Umhverfisstofnun samning við sveitarfélagið um umsjón með hinu friðlýsta svæði. Með friðlýsingunni varð Djúpavogshreppur fyrst íslenskra sveitarfélaga til að samþykkja friðlýsingu svæðis til verndar smádýralífi.

Tjarnaklukka er ein fárra tegunda vatnabjallna sem finnast á Íslandi. Tilvist hennar á landinu var staðfest árið 1935, þegar skordýrasafnaranum Geir Gígja var vísað á stað þar sem heimamenn höfðu orðið varir við óvenju litlar brunnklukkur í tjörnum á Innri-Hálsum ofan við Djúpavog. Lék þá grunur um að tegundin hefði borist þangað skömmu áður. Engin rök voru þó fyrir þeirri tilgátu. Hálfdán Björnsson, bóndi og náttúrufræðingur á Kvískerjum í Öræfum, kom á staðinn í september 1970 og staðfesti að vatnabjallan væri þar enn til staðar.

 Innri-Hálsar eru yst á nesinu sem aðskilur Hamarsfjörð og Berufjörð og nær í 160 m hæð yfir sjó. Þar er fjöldi smátjarna af ýmsu tagi sem iða af lífi. Sumar eru mjög gróðurríkar en minni gróður í öðrum. Þrátt fyrir að tjarnaklukka hafist vel við á Innri-Hálsum hefur hennar ekki orðið vart annars staðar á landinu til þessa og þykir það merkilegt.

,,Vert er sömuleiðis að geta þess“, stendur á heimasiðu Djúpavogs, ,,að ráðherra sem og fulltrúar umhverfis- og náttúrufræðistofnunnar sáu sérstaka ástæðu til þess við lok dagskrár að hrósa þeirri vinnu sem lögð hefur verið  í gerð aðalskipulags Djúpavogshrepps 2008 - 2020 og töldu að fá eða engin dæmi væri fyrir jafn metnaðarfullri vinnu við gerð skipulags af hálfu eins sveitarfélags“.


Umhverfisráðherra sagði friðlýst svæði vera aðdráttarafl fyrir ferðamenn og að margir náttúruunnendur leituðu uppi friðlýst svæði og náttúruminjar á ferð um landið. Mörg þekkt náttúrufyrirbæri á svæðinu í kringum Djúpavog löðuðu að ferðamenn, ljósmyndara og fuglaskoðara ár hvert og sagði hún friðlýsingar styrkja ferðmennsku á svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.