Deilur um sveitarstjórann eyðilögðu meirihlutasamstarfið á Vopnafirði

Meirihlutasamstarfi K-lista og Betra Sigtúns í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps lauk á fimmtudag eftir að fulltrúar K-lista fóru fram á að sveitarstjóranum yrði sagt upp vegna samstarfsörðugleika. Fulltrúar nýs meirihluta telja að óráðlegt hefði verið að skipta um sveitarstjóra fyrir síðustu sex mánuði kjörtímabilsins.

„Það er ekki mín venja að tala um illa um fólk en það hefur verið erfitt að starfa með sveitarstjóranum. Okkar samstarf var örugglega búið fyrir ári síðan,“ segir Eyjólfur Sigurðsson, oddviti K-listans.

„Það er ekkert eitt sem hægt er að nefna sem veldur trúnaðarbrestinum. Ég er viss um að margir sem fylgst hafa með úr fjarlægð séu hissa en þeir sem hafa starfað náið með honum skilja þetta.“

K-listinn sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem segir að fulltrúar listans hafi oft á kjörtímabilinu verið ósáttir við vinnubrögð sveitarstjórans, Ólafs Áka Ragnarssonar og það hafi ágerst. Þrír nefndarmenn listans hafi sagt sig frá störfum.

Meðal annars vegna þess hafi fulltrúar K-lista látið fulltrúa Betra Sigtúns vita af því fyrir rúmum mánuði að þeir vildu segja Ólafi Áka upp. Á það hafi fulltrúar Betra Sigtúns ekki fallist.

Í yfirlýsingu Betra Sigtúns frá í morgun segir að um nokkurn tíma hafi ekki ríkt ánægja „meðal aðila“ í gamla meirihlutanum með störf Ólafs Áka. Þau mál hafi verið rædd á vinnufundi meirihluta í nóvember þar sem fulltrúar K-lista hafi lýst því yfir þeir vildu ekki lengur starfa með sveitarstjóranum.

„Þessar ákvarðanir eru því ekki teknar í flýti þó svo að svo megi virðast, því óánægjuástand hefur verið ríkjandi,“ segir í yfirlýsingu Betra Sigtúns.

Hætti í hreppsnefnd vegna trúnaðarbrests

Kveikjan á fimmtudag var bréf Sigríðar Elvu Konráðsdóttur, fulltrúa K-lista, sem tekið var fyrir fyrst á meirihlutafundi og síðan hreppsnefndarfundi samdægurs. Í bréfinu óskar hún lausnar frá störfum í sveitarstjórn þar sem trúnaðarbrestur hafi orðið milli hennar og sveitarstjórans.

„Að starfa í sveitarstjórn fylgir mikil ábyrgð og mikilvægt að allir geti unnið saman af heilindum. Traust milli aðila er grunnforsenda þess að það sé hægt. Þar sem orðið hefur trúnaðarbrestur á milli mín og sveitarstjóra sé ég mér ekki fært að starfa lengur í sveitarstjórn að óbreyttu,“ segir í bréfinu.

Fulltrúar B-lista sátu hjá þegar afsögn Sigríðar Elvu var afgreidd. „Við höfum ekkert út á hennar störf að setja í hreppsnefndinni, þetta var hennar ósk,“ segir Bárður Jónasson, oddviti B-lista.

Sveitarstjórinn gagnrýndur á meirihlutafundi

Í yfirlýsingu K-lista segir að miklar umræður hafi skapast um bréfið á meirihlutafundinum og sveitarstjórinn verið gagnrýndur af fulltrúum beggja framboða. Það hafi leitt til þess að hann yfirgaf fundinn.

Stefán Grímur Rafnsson, oddviti hreppsnefndar og Betra Sigtúns, var fjarri báðum fundum þar sem hann var kallaður út í vinnu. Eyjólfur stýrði þess vegna fundunum.

„Fulltrúar Betra Sigtúns voru með gagnrýni á fundinum, ekki síður en við. Það sem fyllti kannski mælinn var að ég fór að rifja upp eitthvað sem gerðist fyrir ári síðan sem varð til þess að samskipti okkar urðu lítil. Þá gekk sveitarstjórinn út af fundinum,“ segir Eyjólfur.

Aðspurður segist Stefán Grímur ekki skrifa undir að fulltrúar Betra Sigtúns hafi haldið úti harðri gagnrýni á sveitarstjórann.

Eðlilegt að sveitarstjórinn víki njóti hann ekki trausts

Á hreppsnefndarfundinum lagði Ólafur Áki fram uppsagnarbréf þar sem hann óskaði eftir að segja upp störfum strax. Tekið var fundarhlé og á meðan því stóð töluðu fulltrúar Betra Sigtúns og B-lista Framsóknarflokksins Ólaf Áka ofan af því að hætta. „Staða sveitarstjóra skiptir miklu máli og því er mikilvægt að trúnaður ríki milli hans og meirihlutans. Ef hann vinnur ekki samkvæmt vilja meirihlutans er eðlilegt að tekið sé á því.

Eftir bréf Sigríðar Elvu og að Eyjólfur sagði að hann bæri ekki traust til mín mat ég það svo að ég hefði ekkert hér að gera lengur og sagði því upp. Það var ekki vilji Betra Sigtúns eða minnihlutans sem óskuðu eftir að ég starfaði áfram,“ segir Ólafur Áki.

Þurfti að taka á erfiðum málum

Hann segist eiga erfitt með að tjá sig um þær ásakanir sem á hann eru bornar en telur gagnrýnina ekki alla verðskuldaða. „Það er ekki gott fyrir geranda að tjá sig en frá því ég kom hingað 2014 hef ég unnið samkvæmt því sem meirihlutinn hefur óskað, fundað reglulega með þeim og ekki farið út fyrir þann ramma eða fjárhagsáætlun sem mér hefur verið mörkuð.

Við höfum þurft að taka á erfiðum málum frá fyrri tíma, lífeyrissjóður var ekki rétt greiddur og ég fékk doktor í vinnustaðasálfræði til hjálpar því hér voru erfið starfsmannamál. Úr þeim var leyst með skipulagsbreytingum sem öll sveitarstjórn stóð að. Það hefur bitnað á mér að framkvæma það sem sveitarstjórn óskar eftir.

Við höfum líka tekið á erfiðum fjármálum, það þurfti að afskrifa 100 milljónir sem ekki voru rét færðar. Eftir stendur að sveitarfélagið skilar góðri afkomu, hér hefur verið framkvæmt fyrir 500-600 milljónir á kjörtímabilinu og atvinnustigið aukist. HB Grandi hefur eflt starfsemi sína hér og það er mín reynsla að fyrirtæki fari í slíka vinnu nema þau hafi trú á samfélaginu og þeim sem stjórna. Ég tel mig eiga minn þátt í því eins og aðrir.“

Aðspurður um gagnrýni Sigríðar Elvu svarar hann: „Gagnrýni hennar hefur ekki eingöngu snúið að mér. Hún hefur stundum verið í andstöðu við sinn eigin meirihluta, annað hvort setið hjá eða greitt atkvæði gegn. Ég hef þurft að taka á mig ýmislegt sem mér hefur ekki fundist sanngjarnt. Ég er ekki heilagur maður en ég tel mig hafa unnið samviskusamlega.“

Í samtölum við Austurfrétt tóku oddvitarnir undir að Ólafur Áki hefði þurft að taka á erfiðum málum snemma á kjörtímabilinu. Hann hefði orðið fyrir gagnrýni vegna þess en sveitarstjórnin hefði staðið að baki honum.

Vilja ekki upplausn í rekstri sveitarfélagins

Í yfirlýsingu sem Betra Sigtún sendi frá sér í morgun segir að það sé von þeirra sem standi að nýjum meirihluta að með því samstarfi verði hægt að ljúka síðustu sex mánuðum kjörtímabilsins „án þess að valda sundrungu og upplausn í starfsemi sveitarfélagsins.“

Bárður segir að ekki hafi talið þótt henta að skipta um sveitarstjóra þegar aðeins hálft ár var eftir af kjörtímabilinu og fjárhagsáætlun lægi í raun fyrir. Þá hafi samskipti Ólafs Áka við B-listans gengið vel.

„Okkur hefur ekki verið sýnt fram á neitt sem er þess efnis að ætti að segja honum upp og það er ábyrgðarhluti ef við höfum ekki verið upplýst um slíkt. Við mátum það með okkar fólki að þetta væri í lagi.

Það er nánast búið að taka ákvarðanirnar og vinnan felst í að fylgja þeim eftir. Að fá einhvern í starfið í sex mánuði hefði orðið erfitt og kostnaðarsamt og allt orðið stopp. Okkur fannst ábyrgðarleysi að segja sveitarstjóranum upp ef ekki væri um klárt agabrot að ræða.“

Nýr meirihluti tekur formlega við völdum á fundi á fimmtudag í næstu viku. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst mun Stefán Grímur verða áfram oddviti sveitarfélagsins.

Í samtali við Austurfrétt sagði hann ekki búast við neinni sérstakri stefnubreytingu út kjörtímabilið, forgangsmálið væri að afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs. Hann segir starf hreppsnefndarinnar almennt hafa gengið vel og vonast til að svo verði áfram.

„Í heild hefur verið breið samstaða innan sveitarstjórnar og samstarf allra framboða gengið vel. Það hefur verið málefnaleg umræða um hluti sem hefur þurft að afgreiða.“

Getum starfað saman í sex mánuði

Aðspurður um hvort Betra Sigtún beri fullt traust til Ólafs Áka svarar hann: „Ég held við munum geta starfað saman þessa sex mánuði.“

Ólafur Áki vonast eftir góðu samstarfi. „Þetta er ekki óskastaða fyrir sveitarstjóra en það er samkomulag um að ég klári tímabilið með nýjum meirihluta. Ég kvíði því ekki, þetta er gott fólk að vinna með.“

Eyjólfur segir ekki enn komið í ljós hvaða stefnu K-listinn taki út kjörtímabilið. „Það er kominn nýr fulltrúi sem ekki hefur verið inni í þessu. Við eigum eftir að útfæra hvað við gerum. Ég á ekki von á að við séum að fara í allsherjar stríð. Samstarfið í hreppsnefndinni hefur verið ágætt seinni hluta kjörtímabilsins.“

Bárður segir B-lista fólk ánægt með að Ólafur Áki haldi áfram. „Okkur hefur gengið ágætlega að vinna með honum og berum til hans fullt traust. Við töluðum strax við hann um hvort það væri grundvöllur fyrir því að hann drægi uppsögn sína til baka ef við kæmum inn í samstarfið og hann svaraði því strax játandi.“

Hann er bjartsýnn á samstarfið í sveitarstjórninni. „Það hafa komið ágreiningsmál en menn þurfa ekki alltaf að vera sammála, það má hafa skoðanir. Í litlu samfélagi sem þessu er ekki mikið um ágreiningsmál.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar