Orkumálinn 2024

Davíð Þór leysir af í Austurlands- prófastsdæmi

david_thor_jonsson_web.jpgGuðfræðingurinn Davíð Þór Jónsson verður fræðslufulltrúi Austfjarðaprófastsdæmi frá 1. mars til 31. ágúst í leyfi séra Þorgeirs Arasonar. Davíð er reyndar þekktastur sem útvarps- og sjónvarpsmaður, leikari, þýðandi, skáld, ritstjóri og pistlahöfundur og spurningahöfundur.

 

Davíð Þór lauk námi sínu í guðfræði við Háskóla Íslands síðastliðið haust. Hann flutti predikun í Egilsstaðakirkju á gamlárskvöld sem bar yfirskriftina „Til hvers biskup?“ þar sem hann spurði meðal annars til hvers fólk færi til kirkju.

„Við förum í kirkju til að flytja lofgjörð og þakkargjörð. Við förum ekki í kirkju til að vinna okkur inn prik hjá Guði. Við förum ekki í kirkju til að Guð elski okkur. Við förum í kirkju af því að Guð elskar okkur.

Hvers vegna förum við til kirkju? Spurningin er í raun röng. Við förum ekki til kirkju. Við erum kirkja. Það sem við förum til er bara hús, bygging úr steypu og stáli. Kirkja er fólk. Fólk á ferð með guði. Lýður Guðs. Kirkja er samfélag. Kirkjan kemur saman í húsinu til að eiga samfélag í trú.“

Þá þakkaði hann einnig fyrir þann heiður að fá að predika í kirkjunni. „Það er mikill heiður að vera treyst til að prédika. Það er vandasamt verkefni. Það er meira að segja engu líkara en að íslenskum prestum hafi farist það svo illa úr hendi í gegn um tíðina að núorðið er varla hægt að segja neitt ljótara um málflutning nokkurs manns en það að hann sé að „prédika“. Og fræg er sagan af fínu frúnni sem fór í kirkju einhvern tímann þegar presturinn fann sig knúinn til að lesa aðeins yfir söfnuðinum og snupra hann fyrir framgöngu sína í einhverju siðferðilegu álitamáli sem þá var á döfinni. Konan var ekki ánægð með ræðuna og vatt sér upp að prestinum í kirkjukaffinu á eftir og tilkynnti honum með þjósti að hún færi sko ekki í kirkju til að láta prédika yfir sér!“

Eins og titill predikunarinnar ber með sér velti Davíð vöngum yfir komandi biskupskjöri þar sem lýðurinn í kirkjunni sér nýjan leiðtoga. Hann ræddi stöðu þjóðkirkjunnar, óánægju með yfirstjórn hennar og úrsagnir að undanförnu. Yfir kirkjunni, eins og fleiri stofnunum þessa lands, vofir niðurskurður.

„Flestar sóknir í landinu búa sig nú undir 15% – 20% niðurskurð. Þetta bitnar á æskulýðsstarfi, félagsstarfi eldri borgara, kóra- og tónlistarstarfi og öðru félagslífi og félagsþjónustu kirkjunnar í nærumhverfi þess sem segir sig úr henni. Auðvitað eru úrsagnir úr Þjóðkirkjunni að einhverju leyti hluti af eðlilegri þróun í átt til afhelgaðra samfélags, fjölmenningar og fleiri valkosta og aukins umburðarlyndis í trúmálum. En ef Þjóðkirkjan bregst ekki við þessari þróun með neinum hætti á hún ekki von á góðu. Henni ber að endurskoða og endurskipuleggja sjálfa sig. Ekki færa þetta til nútímalegra horfs, því núverandi ástand er mjög nútímalegt, raunar fordæmalaust. Nei, kannski væri ráð að færa þetta til upprunalegra horfs.“

Þar nefndi Davíð þá hugmynd að leggja niður biskupsembættin og gera þjóðkirkjuna að sambandi sóknarkirkna sem skipulagðar yrðu sem fríkirkjur og byggðar ár grasrósinni.

„Ég er ekki endilega að mæla því bót eða leggja það til. En þetta er spurning sem á fullan rétt á sér og krefst þess að vera rædd. Ef við ætlum að kjósa okkur biskupa, er þá ekki sjálfsagt að við séum með það alveg á hreinu til hvers við þurfum þá? Og að við þurfum þá yfirhöfuð?

Kannski er það að bera í bakkafullan lækinn að hamast svona endalaust á blessaðri Þjóðkirkjunni og það við þetta tækifæri. En það er hefð fyrir því á þessum tímamótum að vera svolítið pólitískur. Ég vil því taka fram að orð mín hér má alls ekki skilja sem svo að ég sé að fullyrða að hjá Þjóðkirkjunni sé allt í kaldakolum. En ef kirkjan ætlar ekki að bregðast sínum spámannlegu skyldum og vera tekin alvarlega þegar ástæða er til að „prédika“ yfir fólki, verður hún að þola að prédikað sé yfir henni. Sá sem gagnrýnir má ekki vera yfir gagnrýni hafinn. Kirkjan þarf að bjóða upp á samtal, bregðast við gagnrýni og svara henni en ekki snupra alla gagnrýni um leið og hún kemur fram, eins og hún sé yfir hana hafin vegna þess eins að hún er kirkja. Hver hlustar á þann sem ekki hlustar sjálfur?“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.