„Dagurinn sem hampurinn stimplaði sig formlega inn í íslenskan iðnað“

„Við erum himinlifandi með þessa viðurkenningu og sérstaklega ánægð með að iðnaðurinn sé loks að gefa hampframleiðslu gaum,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, viðskiptafræðingur og einn eigenda fjölskyldufyrirtækisins Geisla Gautavík í Berufirði.

Fyrirtækið hlaut í dag sérstaka viðurkenningu Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar vegna tilraunaræktunar á iðnaðarhampi og vinnslu úr honum og var viðurkenningin afhent við hátíðlega og fjölmenna athöfn í Reykjavík.

Í umsögn stjórnar sjóðsins vegna þessa segir: „Ástæða þess að Geislar Gautavík hlýtur viðurkenningu sjóðsins að þessu sinni er að eigendur fyrirtækisins hafa unnið ötullega að vitundarvakningu um notagildi iðnaðarhamps og möguleikum hans til að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum. Eigendurnir eru því sannkallaðir frumkvöðlar og brautryðjendur. Breytingar á lögum um innflutning, meðferð og vörslu iðnaðarhamps hafa gert ræktun á iðnaðarhampi á Íslandi mögulega. Stjórn sjóðsins vill með þessu vali beina sjónum að þeim tækifærum sem geta fylgt hampframleiðslu á Íslandi þar sem jákvæðir eiginleikar nytjaplöntunnar geta meðal annars gagnast í byggingariðnaði, matvælaframleiðslu og húsgagnaframleiðslu.“

Oddý Anna segir að verðlaunaféð, alls um tvær milljónir króna, muni nýtast mætavel í uppbyggingu nýs gróðurhúss í Gautavík þar sem rækta á sérstök yrki af hampinum en fyrst og fremst er hún ánægð með að lítið dútl austur á landi hafi nú kveikt vitundarvakningu fyrir möguleikum innlends hamps til framleiðslu í miklu stærri stíl.

„Lykillinn er að íslenskur iðnaður komi auga á þau tækifæri sem hampurinn býður upp á. Við bændur getum ræktað og ræktað en ef enginn hefur áhuga á hráefninu þá er lítið hægt að gera við uppskeruna.“

Oddný vildi líka koma á framfæri þökkum til sveitarstjórnar Múlaþings og þess sem áður var sveitarstjórn Djúpavogs fyrir mikinn og góðan stuðning við verkefnið í Gautavík gegnum tíðina. Sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, mætti á verðlaunaafhendinguna og samfagnaði með Oddnýju og Pálma Einarssyni.

Verðlaunaafhendingin. Frá vinstri Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Pálmi Einarsson, iðnhönnuður, Oddný Anna Björnsdóttir, viðskiptafræðingur, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigrún Kristjánsdóttir, fulltrúi fjölskyldu stofnanda sjóðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.