Dagskrá í tilefni af alþjóða geðheilbrigðisdeginum

Geðhjálp Austurlandi í samvinnu við Ásheima, mann- og geðræktarmiðstöð, stendur fyrir dagskrá í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld í tilefni af alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum.

„Við fylgjum straumnum og stöndum fyrir dagskrá ríkt og á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum vera með hér og láta heyra í okkur,“ segir Kristín Rut Eyjólfsdóttir, starfsmaður Ásheima.

Haldið er upp á daginn víða um heim í dag, en aðaldagskráin hérlendis verður í Salnum í Kópavogi. Dagskrá er á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, þar á meðal Egilsstöðum.

Dagskráin hefst klukkan 20:00 og stendur í um tvo tíma. Sveinn Snorri Sveinsson, formaður Geðhjálpar Austurland, les sannsögulega frásögn af sjálfsmorðstilraun upp úr óútkominni bók sinni, Erla Jónsdóttir talar um geðheilbrigðismál ungmenna, Trausti Traustason verður með erindi um geðrænt heilbrigði út frá samfélagslegum sjónarmiðum og séra Ólöf Margrét Snorradóttir fjallar um áhrif sorgar og áfalla.

Inn á milli flytur Öystein Magnús Gjerde nokkur lög auk þess sem léttar veitingar verða á boðstólunum.

„Okkur finnst spennandi að taka þátt í deginum og vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta til okkar,“ segir Kristín Rut.

Haldið er upp á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn víðsvegar um heim 10. október ár hvert. Dagurinn var fyrst haldinn 1992 af Alþjóðasamtökum um geðheilsu (World Federation for Mental Health) og markmiðið hefur verið i gegnum árin að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum í garð geðsjúkra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.