Dæmdur fyrir ógna manni með veiðihnífi

Rétt liðlega tvítugur karlmaður var nýverið dæmdur í héraðsdómi Austurlands fyrir brot á vopnalögum og almennum hegningarlögum fyrir að ógna öðrum með beittum veiðihnífi.

Atvikið átti sér stað á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi síðasta sumar. Ákærði var þar á ferð með feðgum þegar vinur þeirra kom að.

Feðgarnir og þriðji maðurinn þekktust og tóku tal saman. Ákærði var þar skammt frá en tók snarlega upp hnífinn og hélt honum í rúmlega hálfs metra fjarlægð frá andliti vinarins.

Sá brást snarlega við, greip um hönd ákærða, felldi og afvopnaði áður en hann afhenti hann dyravörðum hátíðarinnar.

Um var að ræða samanbrjótanlegan veiðihníf með 8 sm löngu blaði, vel beittu. Ákærði hélt því fram að hann hefði haft hnífinn með sér til sjálfsvarnar, hann hefði oft séð gesti fyrri hátíða haldleika hnífa og þær væru engar sérstakar friðarsamkomur.

Ákærði bar að hann hefði opnað hnífinn og haldið honum á lofti. Hann hefði verið ölvaður og gálaus en kannaðist ekki við að hafa haft í neinum hótunum.

Þremenningarnir sögðu hann hafa svipt hnífnum á loft af engu tilefni og beint honum að vininum þannig að hann hefði óttast um heilsu sína. Sá sagðist ekki hafa séð menn handleika hnífa á fyrri samkomum.

Dómurinn taldi málið sannað að teknu tilliti til framburðar þremenninganna. Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára. Undanfarin tvö ár hefur hann fengið dóma eða gengist undir sátt vegna skjalafals, fíkniefnabrota og umferðarlagabrota og var á skilorði er brotið var framið.

Þá var honum gert að greiða tæpar 600 þúsund í sakarkostnað auk þess sem hnífurinn var gerður upptækur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar