Dæmdur fyrir beita dóttur sína líkamlegu ofbeldi

Karlmaður var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands í upphafi mánaðar fyrir að hafa beitt dóttur sína líkamlegu ofbeldi. Honum var einnig gert að greiða henni 350 þúsund krónur í miskabætur og þá skal hann greiða 1,2 milljónir í sakarkostnað og málskostnað sinn og dóttur sinnar.

 

Hringdi sjálf á aðstoð

Líkamsárásin átti sér stað um kvöldmatarleyti 20. október árið 2020. Dóttirin, sem var 14 ára þegar hún varð fyrir árásinni, hringdi sjálf í lögregluna þennan dag og tilkynnti um heimilisofbeldi sem hún varð fyrir. Í dómnum er árásinni lýst á þann veg að faðirinn hafi „reiðst dóttur sinni, sem þá var 14 ára gömul og tekið í axlir hennar og ýtt henni inn í svefnherbergi hennar og þar rifið í hana og ýtt henni svo hún féll í gólfið og haldið henni þar niðri og sparkað a.m.k. einu sinni í fætur hennar eða læri, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli fyrir ofan hægra eyra og varð hrædd og fór að hágráta.“

Lögreglumaðurinn sem fyrstur var á vettvang segir að dóttirin hafi verið í miklu uppnámi þegar hann kom á svæði. „Tekið er fram að á nefndri stundu hafi lögreglumaðurinn heyrt ákærða lýsa yfir vanþóknun sinni yfir því að brotaþola hefði í frekjugangi sínu hringt á lögreglu, en í því samhengi heyrt brotaþola svara því til að ákærði hefði „meitt hana“ og m.a. rifið í hár hennar,“ segir í dómnum. Faðirinn sagði við lögreglumanninn á vettvangi að dóttirin hefði „rifið kjaft yfir því að hafa ekki verið látin vita af kvöldmat, en hann hefði þá snöggreiðst og farið með hana inn í herbergi,“ en hann neitaði að hafa beitt hana ofbeldi þó hann hafi vissulega „ýtti henni inn í herbergið.“ Faðirinn og sambýliskona hans tjáðu lögreglu að dóttirin hafi verið til mikilla vandræða upp á síðkastið og hefðu þau leitað liðsinnis barnaverndarnefndar vegna þess. Dóttirin sagði að athugasemd hennar um kvöldmatinn sem varð til þess að faðir hennar reiddist hafi verið sögð í kaldhæðni.

 

Faðirinn neitar sök
Faðirinn neitaði sök í málinu fyrir dómi en sagðist hafa ýtt dóttur sinni inn í svefnherbergið hennar. Hann taldi sig þó hafa gengið of langt og iðrast gjörða sinna. Hann sakaði dóttur sína um að hafa stolið snyrtivörum sambýliskonu sinnar, áfengi og nikótínvörur sem þau áttu. Þá sakaði hann dóttur sína um að fara ekki eftir húsreglu og hreytt í þau fúkyrðum. Hann sagði að skólasókn hennar hefði verið orðin dræm, að hún hafi sýnt af sér ofbeldishegðun og vegna þess hafi hann reynt að koma henni til sálfræðings vegna þess að hann taldi vanlíðan hennar vera mikla. Hann sagði að vegna þessara atriða hafi verið orðin uppsöfnuð reiði innra með honum gagnvart dóttur sinni sem leiddi til þess að hann missti stjórn á skapi sínu við það þegar dóttirin kom í vondu skapi í kvöldmat 20. október 2020 og kallaði hann „ógeð og fitubollu.“


Lögreglumaður sem mætti á vettvang sem og starfsmaður barnaverndar sögðu bæði fyrir dómi að dóttirin hafi verið í miklu uppnámi. „Hún var í mjög miklu uppnámi og grét mjög mikið og átti erfitt með að tala í fyrstu, en náði sér svo á strik,“ sagði starfsmaður barnaverndar fyrir dómi.


„Að öllu þessu virtu þykir frásögn brotaþola um valdbeitingu ákærða trúverðug og verður hún lögð til grundvallar við úrlausn málsins, og þá um ofangreinda háttsemi ákærða, sem er m.a. lýst í ákæru. Sú valdbeiting sem að ofan hefur verið lýst og telst sönnuð felur í sér refsinæman verknað. Gegn neitun ákærða, en einnig að virtum framburði brotaþola og öðrum framlögðum gögnum, hefur ákæruvaldið aftur á móti eigi fært sönnur á að ákærði hafi sparkað einu sinni í fætur brotaþola, líkt og lýst er í ákæru. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi,“ segir í niðurlagi dómsins. Þá segir einnig um brotið „en allt framangreint var ruddalegt og særandi gagnvart stúlkunni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.