Dæmdur fyrir að ráðast á annan mann í rekkju sinni

Karlmaður hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ryðjast inn á heimili annars manns og ráðast að honum. Hann var sýknaður af ákæru um eignaspjöll og hafa tekið manninn kverkataki.

Atvikið átti sér stað í Fjarðabyggð seint um kvöld í október í fyrra. Maðurinn fór að húsi þar sem þrír menn bjuggu, barði fast á hurðina og gekk óhikað inn án þess að bíða þess að verða boðinn eða segja til nafns þegar einn þeirra opnaði til að kanna hvað væri á seyði.

Þaðan hélt maðurinn rakleitt inn í herbergi eins þeirra og kýldi mann sem þar lá í rúmi sínu í andlitið. Mennirnir tókust síðan á en meðleigjendum húsráðanda tókst að lokum að skakka leikinn og hringja á lögreglu.

Í dóminum kemur fram að mennirnir hafi setið saman við eldhúsborðið þegar lögreglu bar að garði og sá óboðni virst örmagna. Mun hann hafa reiðst yfir því að hinn maðurinn væri í tygjum við fyrrum eiginkonu hans.

Maðurinn játaði að hafa slegið manninn í andlitið en neitaði því að hafa ruðst inn óboðinn. Dómurinn þótti hins vegar hvort sannað með áverkavottorði að maðurinn hefði gert gott betur en kýla fórnarlamb sitt einu sinni í andlitið. Þá taldi dómurinn sömuleiðis ljóst með framburði allra að hann hefði farið inn á heimilið án leyfis.

Maðurinn var hins vegar sýknaður af því að hafa tekið fórnarlamb sitt hálstaki og reynt að kyrkja það sem og að hafa valdið eignaspjöllum með að sparka upp hurð er hann réðist inn í svefnherbergið.

Þótt framburður íbúanna þriggja væri samhljóma og ekki talinn ótrúverðugur, hafði fórnarlambið ekki minnst á það við fyrstu skýrslutök að hafa verið tekið hálstaki né kom það fram í áverkavottorði. Þá hafði enginn þeirra séð manninn sparka upp hurðinni, aðeins heyrt læti í henni og séð á henni skemmdir sem ekki voru áður. Var maðurinn því sýknaður af þessum ákærum.

Í dóminum segir að þótt maðurinn hafi verið í uppnámi réttlæti það ekki árás á heimili annarra. Þótt ásetningur sé eindreginn er játning á hluta sakar og að hann hefur ekki fengið áður refsingar sem skipta máli talin til mildunar refsingar sem er því skilorðsbundin.

Maðurinn var greiddur til að greiða 2/3 sakarkostnaðar, alls um 700 þúsund. Þá þarf hann að auki að greiða fórnarlambi sínu 300 þúsund krónur í miskabætur auk 260 þúsund króna í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.