Orkumálinn 2024

COVID kostar Fjarðabyggð um 250 milljónir króna

Í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar í bæjarstjórn í gærdag kom m.a. fram að áætlað er að COVID muni kosta bæjarsjóð um 250 milljónir kr. í ár í minnkuðum tekjum.


„Áætlunin ber merki þess að COVID faraldurinn, sem tekist hefur verið á við á árinu, hefur haft mikil efnahagsleg áhrif... Áætlað er að niðurstaða ársins 2020 verði sem nemur um 250 milljónum kr. lakari en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir vegna þessa.  Ófyrirséð er hversu alvarlegar afleiðingar COVID mun hafa á efnahagsþróunina á árinu 2021 en reynt er að stíga varlega til jarðar í fjárhagsáætlun ársins 2021...,“ segir á vefsíðu Fjarðabyggðar þar sem fjallað er um fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár.

„Gert er ráð fyrir varfærinni nálgun í skatttekjum sem og þjónustugjöldum Fjarðabyggðar auk hafnarsjóðs en Fjarðabyggðarhafnir eru annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn á uppsjávarafurðum hérlendis.  Ekki er gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021 í fjárhagsáætluninni vegna óvissu í mælingum á stofnstærð, hvorki í útsvarstekjum eða tekjum hafnarsjóðs,“ segir á vefsíðunni.

Fram kemur að eins og undanfarin ár er í áætluninni lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Þrátt fyrir hækkun á flestum gjaldskrám, vegna verðlagsbreytinga og launahækkana standast gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla áfram vel samanburð við önnur sveitarfélög.

„Systkinaafsláttur leikskóla- og frístundagjalda ásamt tónlistarskólagjöldum er áfram með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá verður áframhald á lækkun skólamáltíða í Fjarðabyggð en máltíðin kostaði 450 kr. árið 2018 en 150 kr. í dag. En markmiðið er að þær verði gjaldfrjálsar frá haustinu 2021,“ segir einnig.

Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 8,5 milljarðar kr. á árinu 2020 en heildar rekstrarkostnaður um 7,9 milljarðar kr. Þar af eru launaliðir um 4,6 milljarðar kr., annar rekstrarkostnaður um 2,7 milljarðar króna og afskriftir um 560 milljónir kr. 

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætlaður 611 milljónir kr. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 244 milljónir kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 343 milljónir kr. en rekstrarafgangur í A hluta að fjárhæð 11 milljónir kr.

Athugasemd: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að rekstrarhalli væri um 11 milljónir króna í A-hluta. Þetta var misritað í upphaflegri frétt Fjarðabyggðar og hefur verið leiðrétt þar en hið rétta er að reiknað er með 11 milljóna afgangi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.