Covid-faraldurinn flækir læknamönnun hjá HSA

Heilbrigðisstofnun Austurlands á erfiðra um vik með að fá lækna til starfa vegna mikils álags á Landsspítalanum og ferðatakmarkana út af Covid-19 faraldrinum. Slíkt getur leitt til þess að skerða þurfi þjónustu.

„Hluti af okkar starfsfólki vinnur annars staðar og er reglulega að koma og fara. Læknar í vaktfríum af Landsspítalanum hafa komið til okkar en það er minna um það núna vegna aukins álags á spítalann,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri HSA.

Þá hefur stofnunin einnig fengið til sín lækna sem búa erlendis en reglur um sóttkví allra sem koma til landsins hafa flækt það.

Hann nefnir sem dæmi um að svæfingalæknar sem væntanlegir hafa verið austur á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað hafi verið kallaðir til starfa á Landsspítalanum vegna álags þar. Við slíkar kringumstæður sé reynt að leita lausna. Í fyrsta lagi hvort einhver annar læknir geti komið, í öðru lagi hvort aðrir læknar innan HSA geti gengið í starfið.

Sé hvorug þessara leiða fær þarf að skerða þjónustu. Guðjón segir að sem betur fer hafi sú staða ekki oft komið upp.

Alltaf samkeppni um fagfólk

Þessi staða hefur einkum áhrif á læknamönnun en minna um aðrar stéttir. Guðjón bendir hins vegar á að alltaf sé samkeppni um fagmenntað fólk í heilbrigðisþjónustu og stöðug áskorun sé að bæði fá fagfólk og halda í það.

Staðan er hins vegar alltaf viðkvæm, eins og dæmin sýna bæði af bráðamóttöku Landsspítalans og Kristnesspítala þar sem fjöldi starfsfólk hefur þurft í sóttkví eftir að smit hefur greinst. Í fyrstu bylgju faraldursins í vor smitaðist starfsmaður HSA sem þýddi að nokkrir starfsmenn þurftu í sóttkví.

Þá var til staðar svokölluð bakvarðasveit HSA, hópur fólks sem hægt var að kalla í til að fylla störf ef á þyrfti að halda. Landlæknir hefur síðustu daga kallað eftir að fólk skrái sig í bakvarðasveit fyrir heilbrigðisþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Guðjón segir HSA viðbúið að safna aftur í slíka sveit enda hafi það veruleg áhrif á starfsemina ef margir starfsmenn þurfi í sóttkví.

Annars séu ráðstafanir til staðar til að reyna að hindra smit innan stofnunarinnar. Algjör grímuskylda er meðal starfsfólks á öllum starfsstöðvum og heimsóknatakmarkanir á deildir til að hindra að smit berist inn til viðkvæmra hópa.

Guðjón segist annars afar ánægður með hvernig starfsfólk HSA hafi staðið sig við krefjandi aðstæður. „Það hefur oft brugðist við erfiðum aðstæðum og stórum verkefnum með skömmum fyrirvara, til dæmis skimun í Norrænu og meðal ferðamanna, ásamt því að halda uppi almennri heilbrigðisþjónustu. Þetta hefði ekki gengið nema því HSA býr yfir öflugu starfsfólki sem hefur tekið aðstæðum af þrautseigju og æðruleysi, líkt og samfélagið allt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.