
Cittaslow-sunnudagur framundan
Árlegur Cittaslow-sunnudagur á Djúpavogi verður haldinn á sunnudag. Fyrirtæki, félög og einstaklingar kynna þar framleiðslusýna auk þess ýmis afþreying verður í boði.Djúpivogur er aðili að alþjóðlegu Cittaslow-samtökunum sem leggja áherslu á séreinkenni svæða og menningu. Sérstakur dagur er af þessu tilefni haldinn síðasta sunnudag í september ár hvert.
Miðpunktur hátíðarinnar í ár verður í Löngubúð og Faktorshúsi þar sem meðal annars verður nytjamarkaður og kynningarmarkaður þar sem einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök á Djúpavogi kynna starfsemi sína, verða með sölu eða vörur til prufu.
Í samtímalistasafninu Ars Longa verður fjölskyldustund þar sem hægt verður að ganga og kríta Völustíg í safninu. Þar verður líka sýning eða menningar nemenda á unglingastigi í Djúpavogsskóla í samvinnu við barnamenningarhátíðina BRAS. Viðfangsefnið er hvað fær þau til að ljóma, hver tímalína mikilvægra lífsviðburða er, hvert töfrateppi mundi leiða þau í óskum sínum og hvaða tungumálaauði þau búa að í sínum hópi. Seinni partinn verður fyrsta kyrrðargangan gengin í Sandey.
Þá verður nýtt vegglistaverk við Kallabakka afhjúpað. Listamaðurinn Stefán Óli Baldursson hefur unnið að því síðustu vikur en hann vann myndina út frá gömlum ljósmyndum af dansleikjum á Djúpavogi.