Byggja upp fullkomna þjónustumiðstöð fyrir laxeldið

Egersund Island á Eskifirði hyggur á framkvæmdir á næstunni til að efla þjónustu við aukið laxeldi við Austfirði. Komið verður upp þvottastöð fyrir laxapoka sem verður sú fullkomnasta á landinu. Framkvæmdir á staðnum hefjast innan tíðar og verður stöðin klár til notkunar í nóvember.

„Við ætlum að vera byrjuð að þvo í nóvember. Þetta gerist fljótt þegar er byrjað,“ segir Stefán B. Ingvarsson, framkvæmdastjóri Egersund Island í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Aðalframkvæmdin felst í 460 fermetra viðbyggingu við núverandi húsnæði Egersund en í því verður aðstaða til að bæði þvo og lita laxapokana.

Þar fyrir utan verður hreinsistöð fyrir affallsvatn frá þvottastöðinni og starfsmannaðstaða með búningsklefa og sótthreinsun sem kröfur eru um fyrir þá sem vinna við þvottinn. „Við dælum sjó inn á þvottavélina og af henni fer hann í gegnum hreinsistöðina þannig að ekkert fer aftur í sjóinn nema hreint vatn,“ segir Stefán.

Stöð að norskri fyrirmynd

Þegar búið er að þvo pokann fer hann inn á netaverkstæði Egersund þar sem hann er mældur og prófaður og lagaður ef þarf. Þaðan fer hann í litunarhúsnæðið. Víða í fiskeldi eru pokarnir litaðir með kopar en það hefur ekki tíðkast hjá þeim eldisfyrirtækjum sem starfa úti fyrir Austfjörðum. Aðstaðan verður til staðar í litunarhúsnæðinu en Stefán býst við að það verði fyrst og fremst notað til að sótthreinsa pokana áður en þeir fara aftur út.

Egersund Island er hluti af norska fyrirtækinu Egersund og þangað er þekkingin sótt. Egersund rekur þar í landi átta þjónustumiðstöðvar fyrir laxeldi og er stöðin á Eskifirði byggð samkvæmt þeirri forskrift og eftir norskum stöðlum.

Smíði búnaðarins er þegar hafin erlendis en framkvæmdir á Eskifirði fara af stað um miðjan mánuðinn. Áætlaður kostnaður er 230-250 milljónir króna. „Þetta er mikill og flókinn tæknibúnaður en þjónustustöðin verður sú fullkomnasta í landinu. Hún gerir laxeldið umhverfisvænna og þess vegna hef ég trú á að laxeldisfyrirtækin velji að skipta við okkur,“ segir Stefán.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.