Orkumálinn 2024

Byggja sex íbúðir á Seyðisfirði

Bríet, leigufélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, mun láta byggja sex nýjar íbúðir á Seyðisfirði sem eiga að vera tilbúnar fyrir sumarið. Samkomulag þess efnis var undirritað í dag.

Það voru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Bríetar, sem undirrituðu samkomulagið í Herðubreið.

Fyrir skriðuföllin í desember var búið að ákveða að Bríet myndi byggja tvær íbúðir en í kjölfar þeirra var hafist handa við að skoða að fjölga þeim. Það hefur nú verið staðfest. Þær munu standa við Hlíðarveig og eiga að vera tilbúnar í vor.

Þá er í samkomulaginu frá í dag að finna ákvæði um samstarf ríkisins við sveitarfélagið Múlaþing um húsnæðismál í kjölfar skriðufallanna. Þá sagði Ásmundur Einar að búið væri að taka frá fjármagn innan Bríetar í félagslegan stuðning við húsnæðismál á Seyðisfirði.

Björn sagðist fagna þessum áfanga sem skipti máli til að skapa traust á búsetu á Seyðisfirði. „Við brögðin við þessum hamförum af hálfu stjórnvalda hafa verið til fyrirmyndar. Það var strax haft samband við okkur til að spyrjast fyrir um hvernig væri hægt að bregðast við og nú hefur verið staðfest að byggðar verða sex íbúðir.

Þær skipta verulegu máli til að mynda framtíðartraust hjá íbúum hér. Þeir vita að hér verður íbúðarhúsnæði til leigu og það er mjög mikilvægt. Ég horfi á þennan áfanga sem fyrsta skrefið í þróun húsnæðismála hér og á von á fleirum.“

Soffía sagðist vonast til að vinnan myndi ganga hratt. „Við erum byrjuð að skoða hvernig við ætlum að vinna málið í framhaldinu en við ætlum að gera það hratt í samstarfi við sveitarfélagið og við hlökkum til að byrja.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur um þessar mundir þátt í framkvæmdum á fleiri stöðum eystra, til að mynda Borgarfirði og Vopnafirði.

„Við finnum að við erum að velta við steinum í sérhverju sveitarfélagi. Ég er sannfærður um að yfirlýsingin hér í dag skapi kraft í brjóstum þeirra sem hér búa því með henni er uppbyggingin hafin,“ sagði Hermann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.