Buðust til að passa börnin fyrir Þóru

 
Gestir á fundi forsetaframbjóðandans Þóru Arnórsdóttur í Menntaskólanum á Egilsstöðum í gær buðust til að passa börnin hennar meðan hún einbeitti sér að framboðinu. Hún segir það forgangsmál sitt, verði hún kjörin, að vinna að sameiningu íslensku þjóðarinnar.

Fjölskyldumál Þóru hafa fengið nokkra athygli í kosningabaráttunni en hún hyggst taka sér stutt leyfi í maí þegar hún á að eiga. Gestir á fundinum á Egilsstöðum virtust ekki hafa minnstu áhyggjur af því heldur tóku einróma undir það boð eins fundarmanna að passa fyrir hana börnin.

Sjálf hefur Þóra ekki áhyggjur af áhrifum forsetaembættisins á fjölskyldulífið. „Við höfum bæði verið í krefjandi störfum og börnin fá meiri tíma með heimavinnandi föður,“ sagði hún á fundinum. Þóra og maður hennar, Svavar Halldórsson, hafa bæði starfað sem fréttamenn á RÚV en tóku sér leyfi frá störfum eftir að hún ákvað að bjóða sig fram.

„Ég tel ekki að forsetaembættið taki frá mér meiri tíma með fjölskyldunni en sú krefjandi vinna sem ég hef verið í. Ég missi ekki af meiru en ég hef misst af. Ég get skutlað börnunum í skólann á morgnana og lesið fyrir þau á kvöldin.“

Sameina þjóðina

Þóra segir að hennar aðaláherslur hennar sem forseti verði annars vegar að sameina þjóðina inn á við, hins vegar að koma fram sem fulltrúi þjóðarinnar út á við. „Við verðum að hugsa um hvað við höfum sterkan sjávarútveg, öfluga ferðaþjónustu, náttúruauðlindir og mannauð.“

Hún benti á að verulega hefði dregið úr ferðalögum forsetans eftir hrunið. „Forsetinn mótar ekki sína eigin utanríkisstefnu. Það á að vera samvinna um stefnuna milli forsetans og ríkisstjórnarinnar,“ sagði hún og Svavar bætt við. „Mörg ferðalög núverandi forseta tengdust útrásinni beint, til dæmis að vera viðstaddur opnun stórra banka.“

Þóra segist ekki líta á forsetaembættið sem endastöð. „Ef svo væri þá væri framboðsaldurinn hærri. Persónulega finnst mér að farsæll forseti eigi ekki að vera lengur en í 2-3 kjörtímabil, hámark 12 ár. Ég ætla mér ekki að vera lengur.“

Ef það safnast tíu milljónir þá kostar þetta tíu milljónir

Þóra heimsótti Seyðisfirði og Egilsstaði í gær en verður í dag í Fjarðabyggð. Hún byrjar morguninn klukkan 10:15-11:15 í Sesam brauðhúsi á Reyðarfirði. Milli þrjú og fjögur verður hún í kaffihúsinu Nesbæ og frá hálf fimm til hálf sex í Kaffihúsinu á Eskifirði.

Hún er síðan væntanleg austur aftur þegar nær dregur kosningunum. Hófsemi einkennir rekstur framboðsins.

„Það mun ekki kosta meira en það sem kemur í kosningasjóðinn. Ef það safnast tíu milljónir þá kostar þetta tíu milljónir. Við tökum engin lán heldur notum bara úr sjóðnum í flug, heimasíðu og laun kosningastjóra. Að auki njótum við hjálpar fjölda sjálfboðaliða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.