Búið að steypa yfir El Grillo

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar luku seinni partinn í dag við að steypa yfir þann hluta flaks El Grillo á Seyðisfirði sem olía hefur lekið úr. Stjórnandi aðgerðarinnar segir hana hafa gengið hratt og vel fyrir sig.

„Við teljum okkur vera búna að steypa yfir tankinn og loka fyrir lekann,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.

Vika er í dag síðan varðskipið Þór kom til Seyðisfjarðar með efni, búnað og mannskap til aðgerðarinnar. Gert var ráð fyrir að skipið yrði þar í tíu daga, en jafnvel er útlit fyrir að það fari strax á morgun.

Það kemur í ljós í fyrramálið þegar kafað verður niður að flakinu til að kanna hvernig til hefur tekist. „Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Sigurður.“

Breska olíubirgðaskipinu El Grillo var sökkt af þýskum flugvélum þar sem það lá á Seyðisfirði í febrúar árið 1944. Skipið hefur síðan legið á 32 metra dýpi á botni fjarðarins. Annað slagið hefur orðið vart við olíuleka frá skipinu og við skoðun síðasta haust kom í ljós tæring við tanka þess þar sem olía lak út með tilheyrandi mengun í firðinum.

Til að stöðva lekann þurfti að steypa yfir svæðið. Það hefur verið nokkuð snúin aðgerð. Fyrri hluta vikunnar var unnið að því að skera rör og lagnir og smíða steypumót áður en steypuvinnan sjálf hófst í gær. Steypt var fram eftir kvöldi og haldið áfram í dag.

Sjö kafarar hafa tekið þátt í steypuvinnunni. Hver þeirra getur unnið neðansjávar í 20 mínútur og á leiðinni upp þurfa þeir tvívegis að gangast undir svokallaða afþrýstingu, annars vegar í tíu mínútur.

Steypunni var síðan dælt frá vinnupramma niður í gegnum rör í steypumótin. Notuð er sérstök blanda sem rennur vel en er líka sterk og þornar á 40 mínútum. Því var mikilvægt að viðhafa örugg vinnubrögð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.