Orkumálinn 2024

Búið að opna Fjarðarheiðina

Samgöngur á Austurlandi eru aftur að komast í samt lag eftir fannfergi síðustu daga. Búið er að opna Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði. Flug er í gangi en á eftir áætlun.

Opnað var til Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar og norður upp úr klukkan ellefu í morgun en nokkru fyrr yfir Vatnsskarð. Vegirnir lokuðust eftir hádegi á mánudag.

Samkvæmt umferðarkorti er hálka og skafrenningur á þessum leiðum. Varað er við að mannlausir bílar séu í Langadal. Áfram er unnið að því að breikka rudda kafla á veginum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru láglendisvegir til sveita næstir á dagskrá. Ruðningstæki eru ýmist komin af stað eða verið að kanna ástand veganna. Mokstursbíll lenti í vandræðum í Skriðdal í morgun en losnaði fljótt og á leiðin þar að verða orðin fær.

Helsta vandamálið í vegasamgöngum og birgðaflutningum til Austurlands er lokun vegna óveðurs milli Jökulsárlóns og Kirkjubæjarklausturs. Flutningabílar bíða þar sunnanvið eftir að komast austur.

Flogið var á ný milli Reykjavíkur og Egilsstaða í morgun eftir tveggja daga hlé. Það er þó á eftir áætlun og virðist von á keðjuverkandi seinkunum í dag. Flugi til Vopnafjarðar hefur hins vegar verið aflýst, þriðja daginn í röð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.