Orkumálinn 2024

Búið að fella tólf tarfa

Búið er að fella tólf hreindýrstarfa á veiðitímabilinu sem hófst á sunnudag. Veiðikvótinn er stærri en nokkru sinni fyrr en hlutfall tarfa í veiðunum hefur dregist saman. Ekki má byrja að veiða kýr fyrr en 1. ágúst.

„Þetta fer rólega af stað, eins og áður,“ segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum sem hefur umsjón með veiðunum.

Í dag var búið að fella tólf tarfa en alls er heimilt að veiða 389 slíka. Heldur hefur verið dregið saman í veiðum á þeim, árið 2014 var til dæmis heimilt að veiða 620 stykki.

Jóhann segir skýringuna þá að veiðimenn hafi viljað fá stærri tarfa. Með að draga úr veiðum á þeim gefist þeim meiri tími til að vaxa. Að auki sé dánartíðni þeirra almennt hærri en kúnna.

En það stafar líka af því að veiðimenn átta sig ekki alltaf á að þeir séu að skjóta tarfa. „Það kemur fyrir að ungir tarfar séu skotnir í staðinn fyrir beljur.

Ef menn eru að flýta sér getur verið erfitt að þekkja kynin í sundur. Það þarf að minnka,“ segir Jóhann og bætir við að veiðimennirnir hagnist ekki á þessu, veturgamlir tarfar gefi síst meira af sér heldur en fullorðnar kýr. Veturgamlir tarfar eiga hins vegar að vera friðaðir, líkt og kálfar.

Þær verður ekki heimilt að veiða fyrr en 1. ágúst. Veiða má 1061 kýr sem er mikil aukning en síðustu tvö ár hefur verið leyft að veiða 848 kýr hvort ár. Alls má því veiða 1450 hreindýr í ár, meira en nokkru sinni fyrr.

„Menn þurfa að nýta allan tímann sem gefst til að ná kúnum,“ segir Jóhann og bætir við að veðrið þurfi líka að vera veiðimönnum hliðhollt en þeir geta lítið gert í þoku.

Þar sem lítið hefur enn verið veitt af dýrum er erfitt að átta sig á ástandi þeirra né hafa menn lagt í miklar leitir til að kanna hvað þau halda sig.

„Það er búið að vera hlýtt svo það má búast við að tarfarnir séu hátt uppi. Í lok vetrar var talað um að hornavöxturinn væri hægur en vorið var mjög gott þannig dýrin ættu að vera búin að ná því upp og vera orðin væn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.