Brúin yfir Berufjörð að verða tilbúin

Ný brú yfir Berufjörð er að verða tilbúin. Verr hefur gengið með veginn að henni og útlit er fyrir að hinn nýi vegkafli verði ekki tilbúinn á tilsettum tíma.

Brúardekkið var steypt í einni lotu um miðja síðustu viku. Það tók um 20 klukkutíma og voru 12 steypubílar víðs vegar af landinu fengnir til að keyra 370 rúmmetrum af steypu frá stöð BM Vallár á Reyðarfirði.

Á miðvikudag var brúin spennt upp. Hún er 50 metra löng eftirspennt bitabrú í 25 m löngum höfum. Akbrautin er níu metra breið með 0,5 breiðum bríkum þannig brúin er alls 10 metrar að breidd.

Slétt ár er síðan byrjað var á 4,9 km löngum nýjum vegi yfir Berufjörð sem er hluti af þjóðvegi 1. Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni í vikunni að framkvæmdir hefðu almennt gengið vel.

Þó sígur vegurinn á 250 metra kafla á dýpsta kafla sjófyllingarinnar í norðanverðum firðinum. Verklok voru áætluð 15. september en útlit er fyrir að ekki náist að klára kaflann fyrir þann tíma.

Hringvegurinn að sunnanverðu er hins vegar kominn með bundið slitlag og stikur verða settar upp á næstu dögum.

Vegagerðina annast Héraðsverk ehf. og MVA, Héraðsverk er með jarðvinnuna en MVA brúargerðina.

Frá steypuvinnunni í síðustu viku. Mynd: Vegagerðin/Anna Elín Jóhannsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.