Brugghús og heilsulind á Heyklifi?

Brugghús, veitingastaður og hótel með heilsulind eru helstu hugmyndir félags sem áformar framkvæmdir á Heyklifi á Kambanesi í sunnanverðum Stöðvarfirði. Markmiðið á að vera að byggja upp einstaka hágæða ferðaþjónustu.

Þetta er meðal þess sem finna má í lýsingu fyrir væntanlegt deiliskipulag svæðisins. Þar segir að markmiðið sé að byggja upp svæði með hágæða ferðaþjónustu sem eigi engan sinn líka.

Þar eru viðraðar hugmyndir um hágæða hótel með heilsulind, veitingastað og brugghús með aðstöðu til að taka á móti gestum og fræða þá um framleiðsluna.

Þá er gert ráð fyrir vönduðum og sérstæðum byggingum af nokkrum stærðum til útleigu fyrir ferðamenn. Áætlað heildarbyggingarmagn á svæðinu er ætlað allt að 8900 fermetrar. Eins stendur til að nýta núverandi íbúðar- og útihús á jörðinni fyrir starfsemi staðarins. Því er heitið að framkvæmdirnar raski sérstæðri náttúru svæðisins sem minnst.

Kambanesviti stendur innan deiliskipulagssvæðisins. Aðgengi að honum í almannahag verður áfram óheft. Í lok síðasta árs var gerður samningur um vatnstöku fyrir svæðið úr landi Hvalness.

Heyklif eru í eigu City lab ehf., fyrirtækis Alexander Efanov, arkitekts sem starfað hefur á Íslandi um árabil. Skipulagið hefur verið unnið í samvinnu við Arkís og franska arkitektastofu, DParchitecture.

Í Morgunblaðinu í mars var rætt við Jerome Bottari, framkvæmdastjóra TP Investments, fjölskyldufyrirtæki í Mónakó. Fyrirtækið er sagt tengjast hótelum og veitingastöðum víða um Evrópu. Haft er eftir Bottari að stefnt sé að því að opna ferðamannastaðinn á Heyklifi árið 2021.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.