Orkumálinn 2024

Brottfall nýnema úr austfirskum framhaldsskólum með minnsta móti

Brottfall nýnema úr austfirskum framhaldsskólum árið 2017 var með allra minnsta móti, borið saman við aðra framhaldsskóla á landinu.

Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur á Alþingi um brottfall nema í framhaldsskólum.

Brottfallshlutfall nýnema í Menntaskólanum á Egilsstöðum var 1,5% og 0% í Verkmenntaskóla Austurlands. Hlutfallið í skólunum sveiflast nokkuð milli ára. Þannig var hlutfallið 12,3% í ME árið 2016 en 8,8% í VA. Á tímabilinu sem samantektin nær yfir, 2010-2017, var hlutfallið í ME að jafnaði um 5% en tæp 6% í VA.

Einn annar framhaldsskóli, Menntaskólinn á Laugarvatni, var með ekkert brottfallshlutfall. Í Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum við Sund og í Verzlunarskóla Íslands var hlutfallið undir 1%.

Hæst var hlutfallið í Fjölbrautaskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, 23,5% árið 2017 en þar voru miklar sveiflur á milli ára. Sé horft yfir lengra tímabili er hlutfallið hæst í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, um 20%.

Á landsvísu er hlutfallið 6-7% á þessu tímabili. Það er lægra meðal kvenna en karla.

Í svari ráðherrans er að finna ítarlegri gögn um stöðu íslenskra ungmenna, þótt þær séu ekki sundurliðaðar eftir framhaldsskólum eða landssvæðum. Þannig heldur Hagstofan utan um árgangabrotthvarf sem hefur minnkað á árabilinu 2003-2012, úr 30% í 26%. Hlutfallið var hærra í lok tímabilsins meðal karla, 30% á móti 22% hjá konum.

Snemmbært brotthvarf, þeir sem ljúka ekki framhaldsnámi fyrir 24 ára aldur, lækkaði úr 24,4% árið 2008 í 17,8% árið 2017. Snemmbært brotthvarf meðal karla var 22,% á móti 12,7% hjá konum.

Hlutfall þeirra sem ekki eru í námi, vinnu né starfsþjálfi hefur lækkað úr 6,6% árið 2013 í 4,1% 2017. Hlutfallið er hærra meðal karla þótt munur milli kynja hafi minnkað hratt. Hlutfall þessa hóps er langlægst á Íslandi samanborið við hin Norðurlöndin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.