Orkumálinn 2024

Breytt fyrirkomulag Eyrarrósarinnar

Eyrarrósin, verðlaun fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður framvegis afhent á tveggja ára fresti í stað eins áður. Verðlaunaféð hækkar á sama tíma.

Verðlaunin hafa verið afhent árlega frá árinu 2005 á vegum Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair. Fimm austfirsk verkefni: LungA, Bræðslan, Skaftfell, Eistnaflug og List í ljósi hafa hlotið verðlaunin og enn fleiri verið tilnefnd.

Í gær var tilkynnt um breytt fyrirkomulag verðlaunanna. Helstu breytingarnar eru þær að viðurkenningin verður framvegis afhent á tveggja ára fresti í stað árlega. Verðlaunaféð verður hækkað úr 2 milljónum í 2,5 fyrir aðalverðlaunin auk þess sem þrenn hvatningarverðlaun upp á 750 þúsund krónur verða veitt til nýrri verkefna. Þá fá þau 100 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair.

Til viðbótar þessu verður handhafa Eyrarrósarinnar boðið að standa fyrir veglegum viðburði á Listahátíð Reykjavíkur árið eftir auk þess sem stutt heimildamyndband verður gert um verðlaunahafann.

Hefð er fyrir því að afhenda verðlaunin í heimabæ handhafa Eyrarrósarinnar og verða þau afhent á Patreksfirði í ár þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg vann í fyrra. Þau verða hins vegar afhent í maí í stað febrúar áður, en meðal annars þurfti að aflýsa afhendingunni á Seyðisfirði í fyrra vegna veðurs.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina í ár og er umsóknarfrestur til 26. apríl. Nánari upplýsingar og hlekk á umsóknareyðublað má finna á www.listahatid.is/eyrarrosin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.