Borgfirðingar kalla eftir aukinni vetrarþjónustu og bættu umferðaröryggi
Heimastjórn Borgarfjarðar hefur farið þess á leit við Vegagerðina um að hún þjónustu veginn yfir Vatnsskarð alla daga vikunnar á veturna. Til viðbótar óska íbúar við innkeyrsluna inn í þorpið eftir að hámarkshraði þar verði lækkaður.
Heimastjórn bókaði á fundi sínum í september ósk um að vegurinn yfir Vatnsskarð verði mokaður alla daga vikunnar. Hann er í dag þjónustaður sex daga vikunnar en ekki er mokað á laugardögum.
Heimastjórnin vekur athygli á því að Borgarfjörður sé eini þéttbýlisstaður landsins með yfir 100 íbúa sem nýtur ekki daglegrar vetrarþjónustu þar sem yfir fjallveg sé að fara.
Skiptir miklu máli fyrir atvinnustarfsemi
Vakin er athygli á því að Borgfirðingar hafi ekki úr öðrum leiðum að velja að næsta þéttbýli. Bent er á að það skipti miklu máli fyrir atvinnu, bæði hafi færst í vöxt að vinna sé sótt frá Héraði til Borgarfjarðar og öfugt, en einnig hafa ferðaþjónustuaðilar bent á vandræði sem þetta valdi þeim við að byggja upp heilsársstarfsemi.
En það er ekki bara að vegurinn sé ruddur alla daga vikunnar, heldur sú staðreynd að hann er yfirleitt ekki orðinn opinn fyrr en milli níu og tíu á morgnana. Það hefur bæði áhrif á atvinnusókn og akstur skólabarna sem ekið er frá Borgarfirði í Fellaskóla tvo daga í viku.
Vetrarþjónusta alltaf fram úr áætlun
Loftur Þór Jónsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, var gestur fundarins. Bókað er eftir honum að vetrarþjónustu Vegagerðarinnar hafi ekki verið breytt um margra ára skeið vegna takmarkaðra fjárheimilda.
Það sama sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri, í viðtali við Austurgluggann fyrir mánuði þegar hún var spurð út í vetrarþjónustu. „Hún er rekin með halla á hverju ári þannig við þurfum stuðning á fjáraukalögum. Við fórum líka fram úr á snjóléttum vetri eins og í fyrra. Það er gefið að við lendum fram úr, spurningin er bara hve mikið. Þess vegna höfum við engar heimildir til að auka hana.
Við höfum fengið áskoranir á síðustu árum frá held ég hverju einasta sveitarfélagi á landinu. Þær snúast ekki bara um ferðaþjónustuna, heldur breytta búsetu, atvinnusóknarsvæði og skóla. Það er búið að sameina marga skóla þannig að farið er með börn út á vegi snemma á morgnana sem við mokum kannski ekki fyrr en klukkan 10.“
Vilja lækka umferðarhraða á 2,5 km kafla
Á sama fundi var tekið fyrir ákall íbúa í nágrenni þéttbýlisins Borgarfirði um að gripið verði til ráðstafana til að auka umferðaröryggi. Lagður var fram áskorun, undirrituð af ábúendum á bæjum frá Framnesi og inn í bæinn, á um 2,5 km kafla.
Íbúarnir kalla eftir ýmsum aðgerðum til að auka öryggi bæði búfjár og gangandi vegfarenda. Meðal annars að á þessum kafla verði hámarkshraði lækkaður úr 90 km/klst í 70 km/klst, bætt verði við vegmerkingum sem vari við búfé, vinnuvélum og gangandi. Eins þurfi að bæta gangstéttir og lýsingu.
Heimastjórnin hyggst fylgja ákallinu um bæði snjómoksturinn og umferðaröryggið eftir með erindi til innviðaráðherra og samgöngunefndar Alþingis.