Skip to main content

Borgfirðingar ítreka ósk um betri vetrarþjónustu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. des 2021 10:13Uppfært 09. des 2021 10:16

„Þetta skýtur afar skökku við í svona fjölkjarna sveitarfélagi þar sem fólk sækir reglulega vinnu, skóla og afþreyingu milli bæjarfélaga,“ segir Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystri.

Hann og aðrir í heimastjórninni hafa ítrekað ósk um endurskoðun á fyrirkomulagi vetraropnunar til og frá svæðinu og hvetja sveitarstjórn Múlaþings til að berjast fyrir málinu gagnvart stjórnvöldum og Vegagerðinni.

Þennan vetur er Borgarfjarðarvegur aðeins ruddur sex sinnum í viku hverri en þar styðst Vegagerðin við sérstaka flokkun vetrarþjónustu sem veltur fyrst og fremst á umferðarmagni á hverjum stað fyrir sig. Eyþór segir marga annmarka á þessu fyrirkomulagi og það tryggi ekki samgöngur innan sveitarfélagsins eins og skýr krafa sé um.

„Eins og þetta er núna þá er yfirleitt ekki búið að ryðja fyrr en um níu til tíu á morgnana. Það þýðir að fólkið sem kemur hingað í vinnu eða þarf að fara héðan í vinnu annars staðar kemst ekki á réttum tíma til þess ef færðin er ekki góð. Þess utan þá ljúka ruðningsmenn störfum yfirleitt um klukkan fimm á daginn sem aftur getur leitt til vandræða fyrir gesti eða ferðamenn sem hingað vilja koma og njóta þess sem er í boði í firðinum því færð getur spillst afar fljótt.“

Tæknilega séð segir Eyþór að við ákveðnar slæmar aðstæður þýði þetta að íbúar komist ekki lönd né strönd í rúmlega hálfan sólarhring.

„Svo versnar heldur í því á laugardögum því það er alls ekkert rutt þann daginn. Þjónustufyrirtæki hér sem eru að reyna að freista ferðafólks og þá gjarnan með viðburðum um helgar eiga á hættu að gestirnir sitji hér fastir. Þeir gestir hugsa sig ábyggilega um tvisvar áður en þeir koma aftur.“