Bólusett á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og morgun

Allir einstaklingar eldri en sex mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Tekið verður á móti fólki á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og á morgun.

Í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir að ákvörðunin sé tekin í ljósi upplýsinga um hugsanlegt nýtt mislingasmit á Egilsstöðum.

Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði í dag, föstudaginn 8. mars, frá kl. 15:00 til 20:00.

Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 20:00-21:00.

Á Egilsstöðum er bólusett á Lagarási 22, skrifstofu framkvæmdastjórnar gegn heilsugæslustöðinni, en á Eskifirði á heilsugæslustöðinni.

Þá verður bólusett á báðum stöðum á morgun, laugardaginn 9. mars, frá kl. 10:00 til 15:00. Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 15:00-16:00.

Ekki þarf að panta tíma, nóg er að koma á tilgreindum tímum.

Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1970 hafa langflestir fengið mislinga og eru því ekki í forgangi í bólusetningu.

Einstaklingar sem eru með sögu um eina bólusetningu eru ekki í forgangi. Hægt verður að bjóða þeim bólusetningu síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar