Bolfiskvinnslu í núverandi mynd hætt

Ellefu starfsmönnum HB Granda á Vopnafirði var í morgun sagt upp vegna breytinga á starfsemi fyrirtækisins þar. Til stendur að hætta bolfiskvinnslu á staðnum í núverandi mynd.

„Við héldum fund með starfsmönnum í morgun þar sem tilkynnt var ákvörðun um að bolfiskvinnslu í núverandi mynd yrði hætt,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda.

Bolfiskvinnslan var tekin í gagnið fyrir síðustu áramót og var meðal annars ætlað að minnka árstíðabundna sveiflu í starfseminni á Vopnafirði.

„Eftir síðustu loðnuvertíð héldum við eftir starfsfólki á tímabundinni ráðningu til að vinna áfram í bolfiskvinnslunni. Við segjum upp ellefu starfsmönnum á þessum tímapunkti vegna þessara breytinga. Þetta eru allt starfsmenn komið hafa til starfa á síðustu tveimur árum.“

Áður hafði þremur öðrum starfsmönnum með tímabundna samninga verið sagt upp og ákveðið að ráða ekki í stað tveggja annarra sem sögðu upp sjálfir.

Aðspurður um ástæður ákvörðunarinnar sagði Garðar að verið væri að endurskoða starfsemi fyrirtækisins. Engin ákvörðun hefði verið tekin um tæki eða húsnæði bolfiskvinnslunnar.

Hann sagði ennfremur að verið væri að skoða önnur verkefni sem hægt væri að vinna á Vopnafirði á milli vertíða í uppsjávarfiski. Þeirri starfsemi verður haldið áfram.

„Við höldum áfram þeirri góðu starfsemi sem verið hefur á Vopnafirði. Ákvörðunin nú snýr alfarið að bolfiskvinnslunni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.