Boða þunga í viðræðum um hjúkrunarrými

Fjölgun hjúkrunarrýma er meðal þeirra atriða sem nýr meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista í Fjarðabyggð ætlar að leggja áherslu á. Stofna á Geðræktarmiðstöð til að rjúfa félagslega einangrun.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í málefnasamningi flokkanna sem undirritaður var fyrir fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar á föstudaginn var.

Þar er boðað að heildarendurskoðun á málefnum eldra fólks verði haldið áfram í samstarfi við öldungaráð. Byggja á upp dagvöld og skoða aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu húsnæðis.

Mikinn þunga á að leggja í viðræður við ríkið um hjúkrunarrými, einkum hjúkrunardeildina í Neskaupstað þar sem „aðstæður eru ekki á nokkurn hátt boðlegar.“

Málefni fjölskyldna

Talsmenn nýja meirihlutans hafa lýst því yfir að málefni fjölskyldna verði í forgangi. Þar er meðal annars vísað til aðgerðaáætlunar í fræðslu- og frístundastefnu til næstu þriggja ára. Skoða á úthlutunarlíkan skóla og auka nemendalýðræði.

Endurskoða á Sprett, verkefni milli ólíkra þjónustuarma sem styðja við börn. Koma á upp kynlausri salernis- og búningsaðstöðu í byggingum sveitarfélagsins og semja við Samtökin '78 um fræðslu og ráðgjöf við bæði starfsfólk og nemendur.

Bæta á aðgengi fatlaðra og í gegnum fjölskyldusvið að koma af stað Geðræktarmiðstöð, sem sérstaklega styðji við öryrkja og fólk utan vinnumarkaðar til að rjúfa félagslega einangrun þess.

„Við teljum okkur hafa komið flestum okkar málum á þessu sviði að. Geðræktarmiðstöðin er eitt af stóru málunum til að rjúfa félagslega einangrun sem margir glíma við. Við viljum vinna með fræðslu- og skólakerfinu þannig þar hafi allir jöfn tækiæfir,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, við undirritunina um hvernig félagshyggjan birtist í málefnasamningnum.

Sköpunarmiðstöðin verði ein af menningarmiðstöðvum Austurlands

Áhersla verður á húsnæðismál, áfram veittur afsláttur af gatnagerðargjöldum, lóðir undirbúnar og beitt örvunaraðgerðum í þeim hverfum sem þörf er á. Unnið verður að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis með opinberu félögunum Bríeti og Brák.

Standa á vörð um Verkmenntaskóla Austurlands og efla samstarf hans við grunnskóla. Uppbyggingu háskólaútibús verður haldið áfram.

Áhersla verður á úrgangsmál í ljósi nýrrar löggjafar og nýrri umhverfis- og loftslagsstefnu fylgt eftir. Suðurfjarðavegi á að skipta upp í áfanga, með áherslu á tvöföldun brúa, til að flýta framkvæmdum.

Kynna á Fjarðabyggð sem álitlegan stað fyrir kvikmyndagerð, styðja við landbúnað og fjölbreytta matvælaframleiðslu á svæðinu, fjárfesta í höfnum og vinna að klasa- og samvinnuhúsum í hverfum Fjarðabyggðar. Átak verði gert í ljósleiðaravæðingu þéttbýla í samvinnu við fjarskiptafélög.

Samþætta á söfnin í Fjarðabyggð við menningarstarfsemi. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði verður studd áfram og stefnt á að hún verði formlega ein af menningarmiðstöðvum Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.