Orkumálinn 2024

Boða minni útgjöld fyrir foreldra en svara fáu um kostnað sveitarfélagsins

Framboð í Fjarðabyggð boða fríar máltíðir í skólum sveitarfélagsins og að fyrirkomulag sumarlokana í leikskólum verði endurskoðuð. Lítið var hins vegar um svör við spurningum um fjármögnun breytinganna á framboðsfundi á Breiðdalsvík. Heimamenn höfðu mestan áhuga á bættri hafnaraðstöðu en óttast að hún komi seint.

Fundurinn í gær var sá fyrsti af sameiginlegum framboðs sex í byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Næstu kvöld færast fundirnir svo norðar á bóginn.

Það var Miðflokkurinn sem spilaði fyrstur út breytingum á leikskólamálum með að boða að horfið yrði frá sumarlokunum leikskóla. „Ég ekki að þær gagnist fjölskyldum né atvinnulífi,“ sagði Lára Elísabet Eiríksdóttir, sem skipar annað sæti listans í framsöguræðu sinni. Hún bætti við að framboðið vildi að allar skólamáltíðir yrðu fríar.

Fleiri framboð boðuðu aðgerðir til að lækka útgjöld barnafjölskyldna í kjölfarið. Fjarðalistinn hét einnig fríum skólamáltíðum og Framsóknarflokkurinn að sumarlokanir leikskóla yrðu styttar í tvær vikur í stað fjögurra.

Fjarðalistinn boðaði enn fremur gjaldfrjálsar almenningssamgöngur og fleiri framboð sögðust vilja styrkja ferðir innan sveitarfélagsins til að tryggja aðgengi íbúa að þjónustu.

Ekki búin að kostnaðarmeta

Svör frambjóðenda voru hins vegar óskýr þegar spurt var úr sal hvort tekið hefði verið saman hvað þessi loforð og hvernig þau yrðu fjármögnuð. Eydís Ásbjörnsdóttir af Fjarðalista sagði listann hafa kostnaðarmetið sín áform en nefndi engar upphæðir. „Þetta er hægt.“ 

Guðmundur Þorgrímsson frá Miðflokknum sagði sumarlokanirnar ekki eiga að þurfa að „kosta nein ósköp.“ Þær snérust um að sumarfrí starfsmanna yrðu tekin á misjöfnum tímum. Það yrði þó dýrara í minni skólunum. Hann sagði einnig að framboðið hefði ekki metið kostnað við fríu máltíðirnar.

Frambjóðendur Miðflokksins ræddu hins vegar rekstur sveitarfélagsins og sögðust vilja rýna hann með það að markmiði að ná niður kostnaði. „Við ætlum að rýna fjármálin og forgangsraða og finna peningana sem illa er varið. Við erum með öfluga tekjustofna en ég óttast að við séum eins og gaurinn í löndunargenginu sem fær útborgað á föstudegi en spáir ekki alltaf í hvað hann eyðir,“ sagði Guðmundur.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hvatti til þess að þörfin yrði metin áður en ráðist væri í aðgerðir, annars væri hætta á að fé yrði brennt upp í barnlausum skólum. Fræðslunefnd hafi rætt við fyrirtæki á svæðinu um sumarlokanirnar og ekki fengið neinar athugasemdir. Ýmsar útfærslur hefðu þegar verið reyndar og íbúum standi til boða að fara með börn sín milli skólahverfa á sumarleyfistíma.

Alma Sigbjörnsdóttir, Miðflokknum, kallaði þá lausn galna. „Aðlögun á leikskóla tekur lengri tíma en tvær vikur.“

Ekki ástæða til að óttast sameininguna

Allnokkrir frambjóðendur töluðu um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps sem formlega gengur í gegn með kosningunum annan laugardag. Guðmundur, sem farið hefur í gegnum tvennar sameiningar áður, sagði þær af hinu góða.

„Þið þurfið ekki að vera hrædd við sameininguna, hún er bara góð – ekki bara í reikningsútfærslu heldur fyrir samfélagið. Það verður miklu sterkara. Það er til sé úrtölufólk en það byggir málflutning sinn ekki á neinum rökum.“

Sigurður Borgar Arnaldsson, Fjarðalistanum, lagði áherslu á fríar almenningssamgöngur til að Breiðdælingar gætu nýtt sér þjónustu annars staðar. Hulda Sigrún Guðmundsdóttir, Framsóknarflokki, benti á félagsmiðstöðvar og sagði að vilji ungmennanna sjálfra stæði til að fækka þeim og efla.

Jens Garðar og Jón Björn töluðu báðir um að áður hefðu sveitarfélög sameinast til að ná fram hagræðinu í rekstri en nú sé verið að auka styrk þeirra. Jón Björn nefndi þar sem dæmi að Breiðdalshreppur hefði lengi reynt að semja við Íbúðalánasjóð um niðurfellingu skulda á félagslegum íbúðum sem hefði fengist þegar sameining var í augsýn.

Að veita ríkinu aðhald

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins bentu á að stærra sveitarfélag væri betur í stakk búið til að takast á við ríkisvaldið. „Við í Sjálfstæðisflokknum erum það afl sem þarf til að takast á við fjárveitingarvaldið en meiri og meiri tími sveitarstjórnarmanna fer í það. Dæmi um það er flutningur þjóðvegar 1 sem er fyrsti áfanginn í nauðsynlegum samgöngubótum á Suðurfjarðavegi“ sagði Ragnar Sigurðsson.

„Sveitarfélögum ber að veita ríkisvaldinu aðhald ef niðurskurður eða breytingar ógna atvinnuvegum og sjá um að ríkið veiti þá þjónustu sem því ber að veita,“ sagði Dýrunn Pála Skaftadóttir sem ítrekaði áhersluna um úrbætur á Suðurfjarðavegi.

Óttast að höfnin gleymist eins og á Stöðvarfirði

Fundargestir spurðu hins vegar mest út í hvenær farið verði í þarfar framkvæmdir við höfnina á Breiðdalsvík og lýstu ótta sínum á að þær drægjust úr hófi fram, líkt og á Stöðvarfirði. Ótti þeirra var að stærri staðirnir yrðu látnir ganga fyrir á kostnað þeirra minni.

Bæði Pálína Margeirsdóttir, Framsóknarflokki og Guðmundur Þorgrímsson bentu á að hagur Breiðdalsvíkur vænkaðist með að tengjast sterkum hafnarsjóði Fjarðabyggðar. „Við þurfum að setja peningana sem fást við sameininguna strax í framkvæmdir til að fólk sjái hana,“ sagði Guðmundur.

„Það veltur á því hverja þig kjósið hvenær framkvæmdirnar koma. Framkvæmdirnar á Stöðvarfirði áttu að koma fyrir átta árum en þær eru ekki komnar enn,“ bætti hann við og rifjaði upp að Fjarðabyggð hefði verið stoppuð af með framkvæmdir þar vegna fjárhagsstöðu aðalsjóðs.

Frambjóðendur úr sitjandi bæjarstjórn hörmuðu hve framkvæmdir á Stöðvarfirði hefðu dregist. Eydís sagðist ekki geta lofað neinum tímasetningum, gera yrði langtímaáætlanir og ráðast í hönnun.

Jens Garðar benti á að hafnarsjóður hefði staðið í margvíslegum framkvæmdum, viðhaldi gamalla bryggja, umhverfisverkefnum og stórframkvæmdum, til dæmis á Norðfirði fyrir 700 milljónir út af stærri skipum. Á Stöðvarfirði stæði hönnunarvinna yfir en þörfin hefði breyst með stærri bátum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.