Blóðþorri staðfestur á þriðja eldissvæðinu í Reyðarfirði

Matvælastofnun hefur staðfest að meinvirkt afbrigði ISA-veiru, sem veldur blóðþorra í laxi, hafi greinst í sýni sem tekið var í laxeldisstöð við Vattarnes í Reyðarfirði í síðustu viku. Öllum laxi í stöðinni verður slátrað.

Þetta afbrigði veirunnar greindist fyrst hér við land í stöð Laxa við Gripalda í lok nóvember. Stöðin var strax einangruð og öllum fiski úr henni slátrað. Í kjölfarið var vöktun á hinum tveimur eldissvæðunum í firðinum stóraukin. Í apríl greindist veiran í eldinu við Sigmundarhús og var öllum laxi þaðan slátrað líka.

Fimm kílómetrar eru frá Gripalda að Sigmundarhúsum en þaðan tíu kílómetrar út í Vattarnes. Talið var að sú fjarlægð dygði til að verja síðustu stöðina.

Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að í lok síðustu viku hafi verið tekin sýni úr grunsamlegum laxi af Vattarnesi. Í gær var staðfest að þar hefði fundist veiran sem veldur blóðþorra.

Hið meinvirka afbrigði ISA-veirunnar, sem veldur blóðþorra, greindist í sýni sem tekið var í laxeldisstöð við Vattarnes í Reyðarfirði í síðustu viku. Aðgerðaráætlun hefur verið virkjuð og mun öllum laxi í stöðinni verða slátrað. Veiran er skaðlaus mönnum og sjúkdómurinn hefur hvergi í heiminum greinst í villtum laxi.

Til að gæta fyllstu varúðar hafa Laxar fiskeldi, í samvinnu við Matvælastofnun, nú þegar virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía. Þar með mun allur Reyðarfjörður tæmast af eldislaxi og fara í eldishvíld. Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa fjörðinn af ofangreindu veirusmiti. Við Vattarnes eru í eldi um 1.160.000 laxar í níu sjókvíum og er megnið af fiskinum á bilinu 2-3 kg.

„ISA-veiran tilheyrir fjölskyldunni Orthomyxoviridae og býr yfir flestöllum eiginleikum inflúensaveira, sem við þekkjum hjá bæði fuglum og spendýrum. Þekkt eru tvö afbrigði ISA-veirunnar. Annað er góðkynja afbrigði sem aldrei veldur sjúkdómi eða tjóni (HPR0) og hitt er meinvirkt og veldur misalvarlegri sýkingu og afföllum (HPR-deleted).

Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum. Þess ber einnig að geta að klínískur sjúkdómur hefur hvergi á heimsvísu verið staðfestur í villtum laxi í sínu náttúrulega umhverfi, jafnvel þótt hin meinvirka gerð veirunnar hafi verið einangruð úr slíkum fiski,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Forsvarsmenn Laxa vildu ekki tjá sig um stöðuna þegar Austurfrétt leitaði eftir því þar sem tíðindin væru aðeins nýkomin til þeirra. Von er á viðbrögðum frá fyrirtækinu á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.