„Bland af faglegri næringu og skemmtun“

Starfsfólk þriggja leikskóla og tveggja grunnskóla á Austurlandi fór nýverið í námsferð til Alicante á Spáni til að kynna sér kennsluaðferðina Leikur að læra.


Sigríður Herdís Pálsdóttir, leikskólastjóri í Tjarnarskógi á Egilsstöðum, segir tilkomu ferðarinnar þá að haustið 2015 kenndi Kristín Einarsdóttir námskeiðið Leikur að læra fyrir starfsfólk Tjarnarborgar. Kristín er ein þriggja sem heldur úti heimasíðunni leikuradlaera.is en þar er bæði boðið upp á námskeið og námsferðir erlendis.

„Leikur að læra er náms- og kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt. Í aðferðinni er öll kennsla hugsuð út frá þörfum barna til að leika og hreyfa sig og upplifa námsefnið í gegnum mismunandi skynfæri. Leikur að læra er að mestum hluta kennarastýrður leikur þó svo að frjálsi leikurinn fái sitt rými. Kennarinn getur nýtt sér einstaka hluta hugmyndafræðinnar eða farið skref fyrir skref eftir heildstæðum kennsluáætlunum aðferðarinnar og aðferðin hentar því reyndum og óreyndum kennurum og starfsfólki,“ segir Sigríður Herdís.

Góð samvinna milli austfirskra leikskóla
Sigríður Herdís segir að tími hafi verið kominn til að fara erlendis í námsferð en hægt sé að sækja um hópstyrki til stéttarfélaga til slíkra ferða á fjögurra ára fresti. Hún segir að ferðin hafi verið ákveðin í lok árs 2016.

„Fljótlega kom upp sú hugmynd að reyna að skipuleggja beint flug frá Egilsstöðum og FA Travel sá um það en Leikur að læra um alla skipulagningu ferðarinnar. Ferðin spurðist svo út til annarra skólastofnanna á Austurlandi og í ferðina fór starfsfólk þriggja leikskóla en auk Tjarnarskógar fóru Eyrarvellir á Norðfirði og Kæribær á Fáskrúðsfirði. Einnig fóru með nokkrir kennarar úr Eskifjarðarskóla og tveir kennarar frá Egilsstaðaskóla,“ segir Sigríður Herdís.

Sigríður Herdís segir að góð samvinna ríki milli leikskóla á Austurlandi, sem haldi árlega sameiginlegt haustþing. „Það var því kærkomið að fara saman á námskeið erlendis og þétta hópinn. Hver skóli var með sína dagskrá þannig að samvera starfsfólksins var aðallega við sundlaugarbakkann seinni partinn að dagskrá lokinni. Engu síður eflast tengslin og fólk spjallar frekar saman þegar það á þessa sameiginlegu reynslu.“

Boðið að gerast „Leikur að læra skóli“
Sigríður Herdís segir að eftir námskeiðið sé leikskólum boðið að gerast „Leikur að læra skóli“, en þá skuldabinda leikskólar sig til að vinna markvisst eftir aðferðum, geta leitað til kennara Leikur að læra og fengið ráðgjöf varðandi skipulag kennslunar.

Hún segir mikla ánægju ríkja með ferðina. „Frá námskeiðinu er það helst gleðitilfinning sem situr eftir – gleðin yfir því að fá að leika sér saman í skemmtilegum verkefnum sem reyna á ýmislegt. Efst í huga okkar er þó þakklæti til skipuleggjenda Leikur að læra. Vel var haldið utan um hópana til að allir fengju sem mest út úr ferðinni. Allir komu til baka sælir og ánægðir yfir skemmtilegri námsferð sem eflir og styrkir gott starf skólanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.