Blængur með mettúr í Barentshaf

Frystitogarinn Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað á föstudag með algjöran metafla eftir langt úthald í Barentshafi. En Blængsmenn skiluðu ekki aðeins verðmætum afla á land því margskonar rusl kom upp úr sjó með veiðarfærunum sem skipið færði einnig til lands og komið var til förgunar.

Alls var aflinn 1.430 tonn upp úr sjó og er aflaverðmætið um 512 milljónir króna (fob). Hásetahluturinn úr túrnum nemur um 5,5 milljónum króna og heildarlaunagreiðslur nema 225 milljónum, en túrinn var líka langur, rétt tæpir 40 sólarhringar.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er haft eftir Theodór Haraldssyni, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, að mokveiði hefði verið nánast allan tímann. „Fiskurinn sem fékkst var yfirleitt mjög góður en aflinn var fyrst og fremst þorskur, 1.330 tonn, og síðan voru 100 tonn af ýsu. Lestarnar voru nánast sneisafullar af þorskflökum.“

Gott veður og veiði
Að sögn Theódórs voru aðstæður líka upp á það allra besta. „Veðrið var dásamlegt þarna austurfrá. Skipið hreyfðist aldrei fyrr en við vorum að koma hér upp að landinu – þá var siglt inn í lægðasúpuna. Við vorum lengst af á veiðum á Skolpenbanka og Kildinbanka, sem er norðaustur af Múrmansk. Svo kom að því að stóru hafsvæði var lokað og þá færðum við okkur sunnan til á Gæsabanka og þar var mokveiði. Þegar við vorum á Gæsabanka vorum við um 50-60 mílur frá eynni Novaya Zemlya. Ég held að verði að segjast að þessi Barentshafstúr hafi verið afar vel heppnaður.“

Sjórinn ekki lengur látinn taka við
Athygli hefur vakið að eftir að skipið lagðist að bryggju í Neskaupstað var mikið af allskonar drasli híft í land og brátt mynduðust tveir stórir haugar sem mörgum varð starsýnt á. Í haugunum mátti sjá alls konar trollafganga, spotta, krabbagildrur og málmhluti af ýmsu tagi. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar kemur fram að alllengi hafi íslenskir togarar fært allt að landi sem komið hefur í veiðarfærin. Um ýmiskonar rusl geti þar verið að ræða, allt frá veiðarfæraleifum til hluta úr sokknum skipum. Öllu sé síðan fargað eftir þeim reglum sem gilda og það sé löngu liðin tíð að ruslinu sé dembt í hafið í anda gamla máltækisins „lengi tekur sjórinn við“.

Að sögn Theódórs er ástandið verra í Barentshafinu en á íslensku hafsvæði. „Það virðist vera óhemju drasl þarna á hafsbotni og miklu meira en hér við land. Við tökum allt sem upp kemur, leggjum það til hliðar og komum með það í land þar sem því er fargað. Það er langt síðan hætt var að demba öllu í sjóinn af íslenskum skipum og með aukinni umhverfisvitund byrjuðu menn að flytja allt í land sem upp kom í veiðarfærunum. Íslenskum sjómönnum er annt um hafið eins og eðlilegt er.“

Stefnt er að því að Blængur haldi til veiða á ný á morgun og áhersla þá verði lögð á grálúðu- og ufsaveiði.

Blængur NK Mynd: SG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.