Björn Hafþór hættir í vor

Björn Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi, ætlar ekki að halda áfram í því starfi eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta staðfesti Björn Hafþór í samtali við agl.is.

 

ImageBjörn Hafþór hefur verið sveitarstjóri í hreppnum undanfarin átta ár en hann var áður sveitarstjóri á Austur-Héraði í fjögur ár. Hann var sveitarstjóri Stöðvarhrepps árin 1982-1991, og framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi 1991-1998. Hann hefur frá árinu 2008 verið formaður þeirra samtaka.

Í gær greindi Fréttablaðið frá því að Björn Hafþór hefði, fyrir mistök, orðið af tíu milljóna lífeyrisréttindum sem lagt var upp með þegar hann var ráðinn sveitarstjóri Djúpavogshrepps. Björn Hafþór var í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem Djúpavogshreppi láðist að sækja formlega um aðild að.

„Það hefur verið reiknað út, miðað við lífaldur og fleira, að þetta séu átta til tíu milljónir króna sem munar. Mönnum láðist bara að sækja formlega um aðild að þessu. Þegar þeir réðu mig voru allir í góðri trú. Þetta er bara eitthvert ansans formsatriði sem þeir hjá lífeyrissjóðnum eru að hengja sig í.“

Hann telur sig eiga kröfurétt á sveitarfélagið og hefur oddvita þess verið falið að semja við Björn Hafþór. Hann segist samt aldrei hafa ætlað að gera sveitarfélagið að fullu ábyrgt fyrir réttindatapinu og ætli ekki mál við það.
„Ég hef orðað það þannig að mér hafi einfaldlega verið refsað fyrir að flytja yfir Öxi; úr Skriðdal og niður í Berufjörð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.