Björgunarbáturinn Hafdís í fyrsta útkallið

Nýr björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði Hafdís fór í sitt fyrsta útkall, þegar kviknaði í strandveiðibát 19 sjómílur út af Gvendarnesi, milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, upp úr hádegi í dag. 

bjorgunarbatur_fask_odmag1.jpg,,Útkallið kom upp úr klukkan eitt, við vorum snöggir að sjósetja bátinn, búnir að því klukkan 13:25 og komnir að bátnum, sem þá var komin í tog hjá öðrum bát, klukkan 13:51.  Hafdís gekk vel í þessu fyrsta útkalli og náði um 32 mílna hraða á móti vindi, fullmönnuð með tvær dælur um borð", sagi Grétar Helgi Geirsson björgunarsveitarmaður á Fáskrúðsfiði.

,,Eldsupptök í bátnum voru vegna þess að púströr fór í sundur og það kviknaði í út frá því undir þiljum.  Skipverjum tókst að slökkva eldinn að mestu en ekki var hægt að setja bátinn aftur í gang vegna þess að pústið hefði kveikt í honum aftur. Töluverður hiti myndaðist við brunan og brunaskemmdir urðu nokkrar.

Við fórum með dælur með okkur út á Hafdísi, til halds og trausts og hjálpuðum til við að slökkva í glæðum sem enn voru í bátnum þegar við komum að honum, en þá var hann kominn í tog hjá öðrum bát á leið til lands, en báturinn var dreginn til Stöðvarfjarðar vegna þess að þangað var styttra að fara", sagði Grétar Helgi.

Það var upp úr áramótunum sem félagar í Björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði fóru að huga að kaupum á björgunarbáti.  Það var síðan fyrir mánuði síðan sem báturinn kom til landsins, þá voru komnar í hann nýjar vélar og síðasta mánuðinn hefur verið unnið að því að tækja bátinn upp, setja í hann siglingatæki og talstöðvar ásamt helstu stjórntækjum.

Báturinn var síðan vígður og tekinn í notkun á sjómannadaginn um síðustu helgi og hlaut nafnið Hafdís. 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.