Björgunarsveitin enn að störfum í Neskaupstað

„Við erum í raun enn að störfum því það er afar hvasst hér núna og við fengum útkall fyrir skömmu þegar gluggar brotnuðu á íbúðarhúsi hér í bænum,“ segir Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað.

Einir 26 félagsmenn sveitarinnar hafa undanfarinn sólarhring eða svo aðstoðað þar sem þurft hefur til og þar á meðal fóru margir þeirra til aðstoðar á Reyðarfirði síðdegis í gær en þar var langmest tjón vegna veðurofsans.  Nokkuð þurfti einnig að aðhafast í Neskaupstað vegna muna sem voru að fjúka.

Óveðrinu hefur enn ekki slotað og segir Daði að vindhraði og vindátt nú sé eiginlega verri en raunin var í gær.

„Áttin hefur breyst lítillega frá gærdeginum og ég ekki frá því að hvassviðrið sé verra nú en í gær. Við þurftum að fara hér út í bæ og binda niður efni sem var að fjúka frá byggingarsvæði og olli vandræðum. Við náðum að komast fyrir það að mestu leyti. Svo snemma í morgun þá fauk eitthvað á rúðu íbúðarhúss hér með þeim afleiðingum að hún brotnaði og við aðstoðuðum þar. Þannig að okkar verki er ekki lokið enn og við stöndum auðvitað vaktina meðan þurfa þykir.“

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands verður áfram hvasst á Austfjörðunum fram á kvöldið og varað við staðbundnum hviðum allt að 30 metrum á þeim tíma.

Hópur manna úr björgunarsveitinni Gerpi þurfti að hafa hraðar hendur þegar efni í grunni byggingarsvæðis í bænum fór að fjúka um í morgun með tilheyrandi hættu. Mynd Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.