Bæjarráð Fjarðabyggðar krefst þess að sjá HSA skýrsluna strax

hsalogo.gifBæjarráð Fjarðabyggðar krefst þess að Velferðarráðuneytið láti þegar í stað af hendi skýrslu sem það lét vinna að beiðni Heilbrigðisstofnunar Austurlands um framtíðarsýn stofnunarinnar. Í skýrslunni kemur meðal annars að deilur við fyrri starfsmenn hafi reynt á yfirstjórnina og lagðar til stórkostlegar hagræðingaraðgerðir í Fjarðabyggð.

 

Það var vikublaðið Austurglugginn sem greindi frá tilvist og efni skýrslunnar í síðustu viku. Ráðgjafarfyrirtækið Expectus vann hana en HSA óskaði eftir aðstoð vegna þess niðurskurðar sem krafist hefur verið af stofnuninni. Hún var ekki ætluð til opinberrar birtingar og skilgreind sem „vinnuplagg“ innan ráðuneytisins.

Bæjarráðið segir umfjöllun blaðsins benda til þess að trúnaðarbrestur hafi orðið milli sveitarfélagsins og stofnunarinnar. Hluti yfirstjórnar hennar hafi unnið „leynt og ljóst“ gegn hagsmunum fjarðabyggðar á sama tíma og sveitarfélagið hafi „staðið þétt við stofnunina.“ Farið er fram á fund með velferðarráðherra til að ræða framtíð samskipta við HSA.

Í skýrslunni er meðal annars minnst á ímynd HSA sé ekki nógu góð. Starfsandinn sé slæmur eftir niðurskurð og átök yfirstjórnar við fyrrum yfirlækni á Eskifirði en þar er um að ræða mál Hannesar Sigmarssonar. Gagnrýnt er að stuðningur á þeim tíma sem málið var í hámæli frá landlæknisembættinu, heilbrigðisráðuneytinu og öðrum stofnunum hafi verið takmarkaður.

Lagðar eru til breytingar á yfirstjórninni, þær helstar að hún verði sameinuð á Reyðarfirði sem skýrsluhöfundar álíta „hlutlaust svæði  milli eldri átakapóla sem eru Neskaupstaður og Egilsstaðir.“ Breyta þurfi fyrirtækjamenningunni og draga úr hrepparíg. Í skýrslunni er fjallað um að erfiðlega gangi að manna læknastöður og að nýliðun sé áhyggjuefni. Þá kemur fram að HSA sé að nota of dýra starfskrafta á hjúkrunarsviði á Seyðisfirði og á Vopnafirði.

Í skýrslunni koma fram ýmsar tillögur að hagræðingu í heilbrigðismálum á Austurlandi sem ljóst er að yrðu gríðarlega umdeildar í framkvæmd. Lagt er til að miðstöð bráðalækninga á Austurlandi verði byggð upp á Egilstöðum, einkum vegna nálægðar við flugvöllinn.

„Staðsetning aðalsjúkradeildar í Neskaupstað veldur stundum óvissu um hvort flytja eigi slasaðan eða bráðveikan einstakling þangað eða fara með hann beint á Egilsstaði og í framhaldi í sjúkraflug“.

Lagt er til að í Neskaupstað verði aukin áhersla lögð á að sinna endurhæfingu, lyf- og öldrunarlækningum. Fæðingarþjónustan verði flutt í Egilsstaði. Skýrsluhöfundar vilja stækka heilsugæslustöðina á Reyðarfirði en loka á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Borgarfirði, Breiðdalsvík og Bakkafirði. Öldrunarheimilinu Sundabúð verði lokað en fallið var frá þeim hugmyndum fyrir rúmu ári eftir harðvítug mótmæli heimamanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.