Bjarni Benediktsson: Bólusetningar verði grunnurinn að frelsinu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir samkomutakmarkanir vera tímabundna ráðstöfun á meðan sú staða sem komin er upp í Covid-19 faraldrinum verði metin. Hann segir samstöðu hafa verið innan ríkisstjórnarinnar um að hlusta á sóttvarnayfirvöld.

„Það er lagt til í varúðarskyni að grípa inn í því smitum hefur fjölgað hjá bólusettu fólki sem síðan smitar áfram. Heilbrigðisyfirvöld meta það svo að við þurfum að átta okkur á hvaða ógn stafar af slíku fyrir þá sem eru í viðkvæmri stöðu og viðbragðsgetu heilbrigðiskerfisins.

Við erum að skapa okkur svigrúm í 2-3 vikur til að leggja mat á þá stöðu,“ sagði Bjarni að loknum fundi ríkisstjórnarinnar á Egilsstöðum í dag.

Fyrir fundinn hafði verið rætt um að Sjálfstæðisflokkurinn væri tregur til aðgerða en Vinstri græn vildu fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis og það gæti skapað spennu á fundinum. Hann stóð í um þrjá tíma.

„Þetta var góður og málefnalegur fundur sem veitir okkur veganesti inn í næstu vikur varðandi þau atriði sem þarf að skoða. Mér fannst vera samstaða um að hlusta eftir ákalli sóttvarnayfirvalda um að bregðast við tímabundið í varúðarskyni,“ svaraði Bjarni aðspurður um fundinn.

Hann kvaðst treysta á að bólusetningar yrðu lykillinn til frambúðar. „Mér finnst allar upplýsingar sem okkur hafa borist að utan og við höfum sjálf í höndunum segja okkur að bólusetningarnar skipti sköpum. Þær virðast breyta leiknum í grundvallaratriðum. Ég vonast til að málin skýrist betur á næstu 2-3 vikum þannig að bólusetningar verði grunnurinn að frelsinu sem við höfum leitað eftir.

Ég vona að þessar vikur nýtist til að leggja mat á áhyggjur af útbreiðslu smita meðal fólks með undirliggjandi vanda eða annað þess háttar. Aðalmarkmiðið er að stefna að því að tryggja frelsið að nýju.“

Aðspurður kvaðst Bjarni vonast til að efnahagsleg áhrif takmarkananna yrðu takmörkuð. „Ég vonast til þau verði takmörkuð, ég hef trú á því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.