Bjargráðasjóður fær 500 milljónir króna vegna kaltjóna

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tryggt aukið fjármagn til Bjargráðasjóðs vegna óvenju mikilla kal- og girðingatjóna síðasta vetur. Veitt verður 500 milljónum aukalega í sjóðinn á árinu 2020.

Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að hlut­verk sjóðsins er að veita ein­stak­ling­um og fé­lög­um fjár­hagsaðstoð til að bæta meiri­hátt­ar beint tjón af völd­um nátt­úru­ham­fara, meðal ann­ars vegna tjóns á girðing­um og vegna upp­skeru­brests af völd­um óvenju­legra kulda, þurrka og kals.

Kaltjónið sem varð á túnum s.l. vetur var næstmest hjá bændum á Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Bjargráðasjóði sóttu 48 bændur á Austurlandi um bætur til sjóðsins. Um var að ræða tjón á alls 1.175 hekturum, að því er segir á austurfrétt.is í október s.l.

Alls sóttu 211 bændur á Norður- og Austurlandi um bætur vegna kals í túnum sínum. Flestar umsóknar voru úr Suður Þingeyjasýslu eða 63 talsins vegna tjóns á 1.789 hekturum.

Í heildina nema umsóknir um kaltjón hjá Bjargráðasjóði um 800 milljónum kr. Við það bætast svo 160 milljónir kr. vegna tjóns á girðingum en þar eru aðeins 2 umsóknir frá Austurlandi.

Fjár­hagsaðstoð Bjargráðasjóðs felst í veit­ingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í sam­ræmi við fjár­hag og stöðu sjóðsins. Með aukinni fjárveitingu verður sjóðurinn betur í stakk búinn til að styðja við bændur sem lentu í tjóni vegna óveðursins í desember 2019 og almennrar vetrarhörku síðasta vetur, að því er segir á vefsíðu stjórnarráðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.