Orkumálinn 2024

Bæjarfulltrúar fordæma vinnubrögð stjórnar StarfA

starfa.jpgBæjarfulltrúar í Fjarðabyggð gagnrýna ákvörðun stjórnar Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) um að tilkynna um væntanlega lokun stofnunarinnar áður en rætt var við sveitarfélagið. Þeir eru ósáttir við hvernig komið er fram við stuðningsaðila, starfsfólk og skjólstæðinga.

 

„Það er gripið til hörðustu aðgerða strax. Þarna er ekki verið að framleiða tappa á gosflöskur. Þarna eru um viðkvæma skjólstæðinga að ræða,“ sagði Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans við umræður um málið á bæjarstjórnarfundi á fimmtudag.

Agl.is greindi frá því í seinustu viku að öllu starfsfólki StarfA hefði verið sagt upp. Uppsagnirnar taka gildi 1. júní en útlit er fyrir að fjármagn stofnunarinnar verði að óbreyttu uppurið um mitt sumar.

Elvar og aðrir bæjarfulltrúar gagnrýndu að sveitarfélagi hefði ekki verið upplýst nægjanlega um stöðuna eða beðið um aðstoð áður en gripið var til uppsagnanna. Með þeim sé verið að skapa þrýsting á aðgerðir.

„Ég fordæmi þessi vinnubrögð og ég fordæmi hvernig stjórn StarfA fer í þetta mál. Það á ekki að nota okkar lægstu bræður og systur til að þrýsta á að tiltekin starfsemi fái stuðning,“ sagði Elvar.

Elvar telur að álagið á félagsþjónustu sveitarfélaganna aukist verulega ef Starfsendurhæfingunni verður lokað. „Þarna er um viðkvæma skjólstæðinga að ræða sem við fáum á fullum þunga inn í okkar kerfi þar sem okkur skortir bæði fjármagn og fagþekkingu.“

Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng. „Það segir mér enginn að menn hafi ekki séð í hvað stefndi fyrir vikum eða mánuðum. Það eru forkastanleg vinnubrögð að koma ekki með beiðni fyrr en búið er að segja upp starfsfólki og allt komið í hönk.“

Samflokksmaður hans, Valdimar O. Hermannsson, útskýrði að flókin samsetning StarfA, þar sem að koma meðal annars ríkið, stéttarfélög og sveitarfélög, flækti stöðuna.

Guðmundur Þorgrímsson, Framsóknarflokki, sagði „alvarlegt“ að sveitarfélagið fengi ekki að koma að fyrr en gripið hefði verið til uppsagna. Þá sé komið „los á starfsmenn“ og starfsemina alla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.