Biðja fólk um að vera heima meðan veðrið gengur yfir

Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Austurland hvetur íbúa til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu ef óveðursspár fyrir morgun, miðvikudag, ganga eftir.

„Aðilar eru í viðbragðsstöðu og við höfum deilt á milli okkar upplýsingum. Ef veðrið versnar verður aðgerðastjórn virkjuð ef ástæða þykir til,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Samkvæmt veðurspám má búast við norðan stormi eða roki, 20-28 m/s á Austurlandi frá því í nótt og framundir miðnætti annað kvöld.

Gangi spáin eftir verður ekkert ferðaveður í fjórðungnum. „Við viljum biðja fólk um að fara með gát og helst vera heima meðan þetta gengur yfir. Við viljum líka biðja fólk um að fylgjast vel með fréttum og fyrirmælum.“

Í viðvörunum hefur meðal annars komið fram að sjávarstaða kunni að hækka. Því þurfi að huga vel að smábátum þannig þeir hvorki laskist né losni frá bryggju í veðurofsanum. Íbúum hefur einnig verið ráðlagt að tryggja lausa muni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.