Besta upphitunin fyrir Þjóðhátíðardaginn

„Mér er til efs að til sé betri upphitun fyrir Þjóðarhátíðardaginn en að koma og samfagna með okkur hér,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri Lyngholts á Reyðarfirði.

Á morgun stendur loks til að vígja nýja viðbyggingu skólans en sú vígsla var upphaflega á dagskrá fyrir tveimur árum en féll niður vegna Covid-19 eins og margt annað.

Af þessu tilefni verður mikið húllumhæ á leikskólanum. Fyrst verður sérstök dagskrá fyrir börnin fram til klukkan 14 en þá fer vígslan formlega fram. Eru foreldrar og aðrir velunnarar velkomnir til að koma, skoða og njóta margvíslegra veitinga sem matráðar skólans reiða fram.

Aðspurð út í þær breytingar sem viðbygging skólans hafði í för með sér segir Lísa að starfið fyrir stækkun og eftir sé ekkert annað en svart og hvítt.

„Helmingurinn fór undir aðstöðu fyrir okkur starfsfólkið en hún var bágborin fyrir breytingarnar. Sem dæmi má nefna að áður vorum við tvær að deila með okkur tíu fermetra skrifstofu en í dag erum við báðar með alvöru fjórtán fermetra aðstöðu. Svo fengum við góða kaffiaðstöðu og lítið eldhús með auk fundaherbergis svo það er óhætt að segja að í dag séum við með toppaðstöðu að öllu leyti. Vonandi láta sem flestir sjá sig og fagna með okkur og veðrið allavega ætlar að vera með okkur í liði.“

Eftir stækkun Lyngholts er öll aðstaða fyrir bæði börnin og starfsfólkið með því besta að sögn leikskólastjórans. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.