Berglind Sveinsdóttir hlýtur viðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa

Berglind Sveinsdóttir, formaður deildar Rauða krossins í Múlasýslu, fékk viðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa fyrir framlag til samfélagsins á Héraði.

Rótarýklúbburinn hefur frá árinu 2000 veitt einstaklingi, pari eða félagsskap viðurkenningu á 17. júní fyrir mikilsvert framlag til samfélagsins, framúrskarandi afrek, þjónustu eða frumkvæði í einhverri mynd.

Berglind hlaut viðurkenninguna í ár fyrir framúrskarandi frammistöðu og fórnfýsi undanfarin ár. Sérstaklega er tiltekið stuðningur og hjálp við Seyðfirðinga vegna skriðufallanna í desember 2020.

Fyrst opnaði Rauði krossinn með skömmum fyrirvara fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði. Seinni part föstudagsins 18. desember þurfti síðan með enn minni fyrirvara að opna aðra í Grunnskólanum á Egilsstöðum eftir að Seyðfirðingum var gert að rýma heimabæ sinn.

Í á annan mánuð, að nóttu sem degi, veitti Berglind ásamt félögum sínum sálræna áfallahjálp auk þess að reka mötuneyti á sitt hvorum staðnum fyrir íbúa og björgunarfólk. Álagið á sjálfboða Rauða krossins eystra var enn meira þar sem starfsmenn Rauða krossins frá aðalskrifstofunni í Reykjavík komust ekki austur til aðstoðar vegna Covid-faraldursins.

Berglind hefur einnig verið öflug í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi, meðal annars setið í stjórn Hollvinasamtaka heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði. Hún starfaði áður sem sjúkraliði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands en vinnur nú að dægradvöl og félagslegri virkni meðal íbúa hjúkrunarheimilisins Dyngju.

Sveinn Jónsson, forseti klúbbsins, afhendir Berglindi viðurkenninguna. Mynd: Rótarýklúbbur Héraðsbúa 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.