Berglind Harpa gefur kost á sér í 2. – 3. sæti Sjálfstæðisflokksins

Berglind Harpa Svavarsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi, gefur kost á sér í 2. – 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar í haust.

„Pólitíkin hefur átt hug minn allan síðustu árin og ég finn gífurlegan áhuga hjá mér til að stíga enn eitt skrefið til að vinna að málefnum landsbyggðarinnar með því að gefa kost á mér í 2.-3. sætið,“ segir í tilkynningu frá Berglindi.

Hún er fædd í Reykjavík en alinn upp í Hveragerði. Eftir grunnskólagöngu hóf hún nám í Menntaskólanum á Laugarvatni og lauk stúdentsprófi þaðan 1995. Hún fluttist austur á land árið 2003 eftir útskrift sem hjúkrunarfræðingur frá HÍ ásamt eiginmanni sínum Berg Valdimar Sigurjónssyni, tannlækni á Egilsstöðum, en hann er ættaður frá Norðfirði.

Berglind starfar sem forstöðumaður í dagþjónustu aldraðra á Egilsstöðum. Hún lauk meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar árið 2017 frá Háskólanum á Akureyri.

Berglind hefur átt sæti í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs frá 2018 og gegnt formennsku í fræðslunefnd fram að sameiningu nýs sveitarfélags, Múlaþings. Sjálfstæðisflokkurinn vann mikinn kosningasigur í nýju sveitarfélagi og fékk fjóra menn kjörna í bæjarstjórn. Berglind gegnir formennsku í byggðaráði Múlaþings og er formaður heimastjórnar á Seyðisfirði.

„Ég er gífurlega þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum og mér ber skylda til að vinna áfram með þau stóru málefni sem við fórum fram með og bjóða mig fram til alþingiskosninga fyrir Norðausturkjördæmi,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

Berglind hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og segir þau hafa kveikt áhuga hennar til að vinna áfram að áherslumálum sem brenni á íbúum landsbyggðarinnar.

„Áherslumál mín eru heilbrigðismál, atvinnumál, samgöngumál, flugvallamál, tryggt sé að landsbyggðin fái jafnan aðgang að þeirri þjónustu sem ríkið veitir og tækifæri landsbyggðarinnar. COVID tímabilið hefur kennt okkur að tækifærin liggja í netinu og vil ég þá sérstaklega nefna þau tengt atvinnutækifærum og einnig tækifærum til að mennta sig í fjarnámi með búsetu á landsbyggðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.