Beitir á leið til loðnuleitar í kvöld

Beitir, skip Síldarvinnslunnar, tekur næstu daga þátt í leiðangri Hafrannsóknastofnunar í leit að loðnu. Vonir eru bundnar við að finna loðnu þannig hægt verði að auka við útgefinn kvóta.

„Fyrir ári var búist við að loðnukvótinn nú yrði um 400 þúsund tonn. Þess vegna bindum við vonir við að þessi leiðangur bæti aðeins,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.

Eftir leiðangur í haust var gefinn út heildarkvóti upp á 218 þúsund tonn. Þar af koma um 140 þúsund tonn í hlut Íslendinga.

Leiðangurinn, sem Beitir tekur þátt í, hófst á mánudag þegar Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, skip Hafrannsóknastofnunar, létu úr höfn í Reykjavík og héldu vestur fyrir land. Áætlað er að þau verði 10 daga á miðunum.

Beitir, sem fer út í kvöld að lokinni löndun úr síðasta kolmunnatúr, er ætlað að koma á móti rannsóknaskipunum úr austri. Búist er við að hans verði styttri og skipið komi aftur til Norðfjarðar um helgina.

Aðspurður segir Grétar að í haust hafi orðið vart við einhverja loðnu sem átu í þorski en það sé ekki óvenjulegt. Á þessum árstíma sé hún hins vegar að búa sig undir að ganga og því sé ákveðið að freista gæfunnar og halda til leitar.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar kemur fram að desemberleiðangurinn sé að frumkvæði og kostaður af útgerðunum. Tilgangurinn sé tvíþættur, annars vegar vonin um að finna meira, hins vegar að kortleggja útbreiðslu loðnunnar sem nýtist við skipulag veiða og frekari rannsókna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.