Baráttan um vindmyllurnar

Skiptar skoðanir eru um í sveitarstjórn Múlaþings um að heimila Orkusölunni að reisa tilraunamastur með vindmyllum til raforkuvinnslu við Lagarfossvirkjun. Leyfið var staðfest eftir fund sveitarstjórnar í síðustu viku. Níu fulltrúar studdu það en tveir voru á móti.


Nokkur ár eru síðan Orkusalan sótti fyrst um leyfi hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Málið var á ís um tíma en í haust komst það aftur á skrið. Til þess að veita leyfið þurfti Múlaþing að breyta aðalskipulagi á svæðinu. Sú vinna er nú í gangi.

Ekki eru vindmyllur af þessari stærðargráðu til staðar á Austurlandi enn. Samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Orkusölunnar, þarf 50 metra hátt tilraunamastrið, sem byrjað verður á, að standa í tvo til þrjú ár áður en nægileg gögn fást um fýsileika þess að reisa vindmyllurnar á staðnum. Þær vindmyllur verða 150 til 160 metra háar.

Austurfrétt tók saman helstu umræður af fundinum í síðustu viku.

Köllum hlutina réttum nöfnum
Gauti Jóhannsson, Sjálfstæðisflokki, studdi tillöguna

„Tillagan sem rædd er hér felur það í sér að gerð verði breyting á aðalskipulagi í fullu samræmi við skipulagslög og ábendingar Skipulagsstofnunar, að heimila þá nýtingu sem Orkusalan áformar á umræddu iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs við Lagarfljótsvirkjun. Hér er sem sagt lagt til að heimila breytingu á aðalskipulagi á tilgreindu iðnaðarsvæði sem þegar er til staðar og sem sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs vann að í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna sem nú mynda Múlaþing. Um það snýst tillagan. Hvorki meira né minna.

Það er rétt að við stefnum að því að hefjast handa við stefnumörkun á nýtingu vindorku í sveitarfélaginu. Við gerð nýs aðalskipulags verður tekin afstaða til landnýtingar og svæði tilgreind meðal annars til orkuöflunar, náttúruverndar, landbúnaðar og fleira. Þetta er vinna sem þarf að fara í og um það er ekkert deilt. Nýtt aðalskipulag fyrir Múlaþing verður vonandi tilbúið innan fárra ára.

Mér finnst skipta máli að Orkusalan hyggst reisa tvær vindmyllur. Ekki vindmyllugarð, ekki vindmylluver heldur tvær vindmyllur. Ég ætla ekki í neinn orðhengilshátt en mér finnst skipta máli að við köllum hlutina réttum nöfnum.

Ég er þeirrar skoðunar í ljósi umræðu um orkuskipti og áhersluna á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis að okkur beri sem sveitarfélag skylda til þess að leggja okkar af mörkum í þróun á nýtingu þeirra endurnýjanlegu orkuauðlinda sem við höfum yfir að ráða. Þar er ég ekkert bara að tala um vind.“

Vatnsafl fremur en vindorka
Þröstur Jónsson, Miðflokknum, var á móti tillögunni

„Ég sé þessu margt til miska. Þessa tegund orkuvinnslu vil ég ekki sjá þarna né annars staðar á landinu. Ástæður þess eru einfaldlega þær að það er útbreiddur misskilningur að þetta sé mjög græn orkuframleiðsla. Mikil mengun sem stafar af framleiðslu efniviðarins í þessi orkuver, reksturinn er ótryggur enda fer hann eftir vindi og við vitum hvernig hann er. Við erum að sjá það um alla Evrópu og út um allan heim að þessi tegund orkuvinnslu er að lenda í ákveðnu skipbroti. Þetta er meira að segja talin ein ástæða þess að það er fyrirsjáanlegur orkuskortur í Evrópu þar sem ESB verður meira og meira háð Rússum með orku.

Á sama tíma eru til staðar rannsóknarleyfi upp á 140 MW til vatnsaflsvirkjana og það er ljóst að umhverfisspor af uppbyggingu vatnsafslvirkjana er bara brot af því sem það er af orkueiningu í vindafli. Ég ekki alveg að skilja hvað þetta ágæta fyrirtæki er að gera þarna með því að ætla að fara að byggju upp vindorkuver meðan þeir liggja með ein fimm rannsóknarleyfi til vatnsafslvirkjana. Eru þeir að sinna þessum rannsóknarleyfum eða hvað? Ég sé ekki alveg af hverju á að gera þetta?

Í ljósi þess að uppsetning, rekstur og förgun vindmylla til orkuvinnslu hefur mun meiri umhverfisáhrif á einingu uppsetts afls en vatnsaflsvirkjanir, sem og hafa minna rekstraröryggi og í ljósi þess að með virkjun vatnsafls og rannsóknarleyfi á Austurlandi nemur nú allt að því 140 MW þá beri að forgangsraða orkuvinnslu með vatnsafli áður en litið er til meira umhverfisspillandi og síðri kosta til orkuvinnslu í Múlaþingi eins og vindmylla.“

Það vantar enga raforku
Helgi Hlynur Ásgrímsson, Vinstri Grænum, var á móti tillögunni

„Ég skil ekki hvað meirihlutanum gengur til að samþykkja þetta. Átta mig engan veginn á því. Það eru engir fjárhagslegir hagsmunir fyrir að fara af stað með þetta eða allavega mjög litlir. Á framkvæmdatímanum verða einhver hundruðir steypubíla sem fara þarna úteftir. Það getur verið að það þurfi að styrkja vegi til að flytja hundrað metra háa spaða eftir vegunum þarna. Eftir að þetta er komið upp eru nánast engir fjárhagslegir hagsmunir. Hvaða hagsmunir þá? Bara að það vanti raforku. Það er alltaf verið að tala um það. Ég ekki sammála því að það vanti raforku á svæðið og það er verið að styrkja flutningskerfið.

Það átti að keyra þetta í gegn án breytinga á aðalskipulagi en það tókst ekki. Skipulagsstofnun lagðist gegn því og fór líka fram á það að þetta yrði allt skoðað í heild áður en farið yrði í að virkja.  Það verður ekki sátt um þetta í nærsamfélaginu. Það er alveg klárt. Ef þeir ætla að ná í 9,9 MW með tveimur vindmyllum þá þarf að álykta að það þurfi að gera úttekt á þessu áður en þetta verður leyft. Svo bara allt í einu: nei við skulum bara leyfa þetta. Ég skil þetta ekki. Mér finnst þetta hræðilega vitlaust mál.“

Helgi Hlynur og Þröstur lögðu saman fram eftirfarandi bókun á fundinum: „Án fyrirliggjandi heildarmats á því hvort vindorkuver sé eðlilegast og best komið í sveitarfélaginu fylgir einhver áhætta af slysum á kostnað náttúru og lífríkis. Framangreint sýnir að með hag íbúa og náttúru að leiðarljósi eru engar forsendur til að heimila að reist verði vindorkuver við Lagarfossvirkjun og áréttað skal að ákvörðunin væri fordæmisgefandi. Við leggjumst því alfarið gegn slíkri leyfisveitingu.“

Vindorkan grænni en margt annað
Eyþór Stefánsson, Austurlistanum, studdi tillöguna

„Ef maður horfir aðeins yfir sviðið á orkumál á Austurlandi og á Íslandi er ljóst að þar er ærið verkefni framundan. Íslendingar losa um fimmtán milljónir tonna koltvíoxíðs á ári. Níu milljónir tonna af landi, fimm milljónir tonna frá eldsneytisnotkun landans. Á leiðtogafundi SÞ  verða kynnt markmið Íslands um að draga úr losun um 55% frá árinu 1990 fyrir árið 2030. Jafnframt er stefnt að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 sem ég get ekki skilið öðruvísi en að Ísland ætli að binda jafn mikið kolefni og er losað. Þá er uppi markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland fyrir árið 2050.

Þetta er fagurgalinn sem er sunginn og hvernig í ósköpunum ætla menn að fara að því? Ég held það liggi ljóst fyrir að frekari orku er þörf til þess að þetta sé hægt. Og lausnin felst meðal annars í orkuskiptum og ónýtt orka sem er nú þegar í kerfinu ein og sér dugar svona um það bil fyrir orkuskiptum fyrir einkabílinn. Þannig að ef við ætlum að horfa til skipaflutninga eða landflutninga eða flugvéla, hætta að nota kol og svo framvegis þá þarf meiri orku til. Þá spyr maður sig er eðlilegt að hún sé í einhverju formi vindorka?

Það er ljóst miðað við hvernig hefur gengið með rammaáætlun að þar eru hlutirnir ekki að gerast sérlega hratt þó það þurfi nú ekkert að hafa skiptar skoðanir á því hvort að vatnsorka eða vindorka sé grænni. En vindorka er allavega grænni en margir aðrir orkukostir.“

Í bókun sem Austurlistinn lagði fram er skorað á sveitarstjórn að ráðast eins fljótt og hægt er í vinnu við heildstæða stefnumörkun um nýtingu vindorku í sveitarfélaginu. „Sú stefnumörkun þarf að byggja á greiningum og mati á svæðum sem henta til slíkrar starfsemi. Best hefði farið á því að hún hefði legið fyrir nú þegar taka þarf afstöðu til nýtingu vindorkukostar. Austurlistinn mælir með því að leyfi verði veitt til rekstur tveggja vindmylla við Lagarfossvirkjun í tilraunaskyni. Litið er til ávinnings af því að reisa myllurnar þar enda hefur því svæði þegar verið raskað.

Austurlistinn leggur áherslu á að rekstraraðilinn hugi að mótvægisaðgerðum meðal annars vegna umhverfisáhrifa og dýralífs og gengið verði þannig frá málum af hálfu sveitarfélagsins að skýrt verði hver beri ábyrgð á að fjarlægja búnað að tilraun lokinni. Jafnframt ítrekar Austurlistinn þá afstöðu sína að um tilraunaverkefni er að ræða og óháð niðurstöðum þess mun sveitarfélagið ráða för um frekari uppbyggingu vindorkukosta á svæðinu.“

Spenntur fyrir þróun vindorku
Stefán Bogi Sveinsson, Framsóknarflokki, studdi tillöguna

„Ég tel að í þeirri stöðu sem nú er uppi sé það bara alveg ágætur kostur fyrir sveitarfélagið að fá um tíu megawött af orku inn á kerfið hér á þessu svæði. Ég ber líka þá von í brjósti að Alþingi fari að vakna og sjái að það er allsendis óeðlilegt að sveitarfélög njóti ekki fullra fasteignagjalda af mannvirkjum eins og þessum. Ég tel í sjálfu sér jákvætt að þetta fyrirtæki Orkusalan, sem er hér með starfsemi hefur áhuga á því að byggja upp og þróa sína starfsemi áfram.

Það út frá þessum sjónarmiðum sem ég hef horft frekar jákvætt á þessar hugmyndir. Fyrir utan það að það ber mikið á milli varðandi það hvernig við metum orkukosti. Ég ætla ekki að þrefa um það hvort rétt sé farið með að þessi kostur sé umhverfisvænni eða betri en hinn. Ég bendi þó á það að ég reikna með í því sem kom fram hjá Þresti hafi ekki verið sérstaklega tekið tillit til þess að flestir orkukostir í vatnsafli þeir hafa í för með sér fleiri óafturkræf umhverfisáhrif á land heldur en vindorkan. Ekkert að þrefa mikið um það.

Það hefur lengi verið þannig í aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs sem við erum að vinna með hérna að það hefur verið gert ráð fyrir orkuöflun og verið jákvæðni fyrir uppbyggingu á því sviði og verið jákvæðni fyrir því að það sé gert með fjölbreyttum hætti. Ég persónulega er mjög spenntur fyrir þróun í vindorku og finnst það vera eitthvað sem sveitarfélög verða að taka afstöðu til í sínu aðalskipulagi. Ég tek undir það að það er býsna brýnt að það fari fram heilstætt mat á kostum og legg áherslu á að láta vinna slíkt mat.

En það sem skilur á milli þessa verkefnis og þeirra verkefna sem við horfum til varðandi þetta heilstæða mat er að flestar hugmyndir um vindorkunýtingu sem uppi eru núna gera ráð fyrir býsna umfangsmikilli nýtingu. Það er sem ég hef allavega horft til gegnum tíðina er hvað þetta heilstæða mat eigi að taka til. Er aðili innan sveitarfélagsins sem geti hýst vindorkuver af töluverðri stærðargráðu sem myndi þá taka mikið land og þá þurfum við að meta hvort landið er okkur meira virði í einhverjum öðrum notum eða láta það vera. Er landið meira virði fyrir það heldur en vindorkunýtingu og vonin er sú að þessu vinna geti leitt okkur á stað að við getum bent á eitthvað tiltekið svæði sem koma til greina varðandi það að reisa vindorkuver af stærri gerðinni.

Því finnst mér eðlilegt, horft til margra þátta, að við leggjum til þessa aðalskipulagsbreytingu og förum gegnum það ferli til að heimila Orkusölunni áframhaldandi vinnu við deiliskipulag. Ég er spenntur fyrir verkefninu og ég held þetta geti haft mjög jákvæð áhrif.

Lýsing fyrir þetta deiliskipulag var kynnt á sínum tíma og af því að hér hefur verið boðað að um þetta verði ekki sátt, þó ég viti ekki hversu víðtækar ályktanir er hægt að draga af þessum eina fundi en þá kom ekki fram afgerandi mótstaða við þessi áform þá þegar þetta var kynnt. Það var ekkert leyndarmál að verkefnið væri í pípunum. Það var í raun bara Skipulagsstofnun sem stöðvaði ferlið með þeirri afstöðu þeirra að breyta þyrfti aðalskipulagi. En við erum að leggja upp í vegferð. Við erum að leggja í skipulagsherferð sem felur í sér mikið mat. Lög segja til um það bæði varðandi áætlanir framkvæmda að við eigum langan veg. En ég er mjög ánægður með þetta skref sem við erum að stíga núna og styð þess vegna tillöguna.“

Vill sjá hvort vit er í þessu
Jakob Sigurðsson, Sjálfstæðisflokknum, studdi tillöguna

„Auðvitað verður þetta allt umdeilt. Það er bara þannig. Þetta er hátt mannvirki en reyndar bara tvær vindmyllur en þær sjást víða að. En hvað er það sem sést ekki þegar við förum að framkvæma eitthvað? Ég er hlynntur því að fara í þetta bara á þeim forsendum að þá sjáum við hvort að það er eitthvað vit í þessu. Hvort það sé hægt að beisla vindorkuna. Héraðsbúar hafa alltaf talað um hvað sé mikið logn á Héraði svo kannski snúast spaðarnir aldrei. Þá kemur það bara í ljós.

Hvað varðar að byggja upp vegi til og frá þá var Lagarfossvirkjun byggð þarna á sínum tíma og ekki voru vegirnir merkilegir þá. Ég tel minna mál að koma þessu fyrir á núverandi vegum enda búið að bæta þá mikið. Hvort þetta skilur lítið eftir sig? Jú, kannski nema yfir framkvæmdatímann en eins og kom fram hjá Orkusölunni þá er tækniþróun svo mikil að það þarf alltaf færri og færri stöðugildi við hverja virkjun. Þannig eru þeir að styrkja þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu og við getum sagt sem svo að þeir þurfi þá ekki að segja upp mannskap.

Við sjáum þessar vindmyllur um allan heim. Þær alltaf hvítar á lit en af hverju hvítar? Ég spurði Orkusölufólkið að því hvort það væri ekki hægt að fá annan lit svo það bæri minna á þeim í umhverfinu en það skiptir kannski engu máli því þetta sést alltaf hvort sem er. Ég lít á þetta sem svona tilraunaverkefni. Það hægt að fjarlægja þetta ef það reynist svo mikið logn á Héraði að spaðarnir snúast ekki. Hvað varðar hálendið þá er yfirleitt nokkuð veðrasamt á hálendinu. Miklu meiri veður þar en á láglendi. Ég styð það að farið verði í þetta verkefni.“


Hvernig ætlum við annars í orkuskipti?
Hildur Þórisdóttir, Austurlistanum, studdi tillöguna

„Mig langar að benda á að samkvæmt skipulagsskýrslu EFLU þá kemur þar fram að vindorku er talin henta vel með vatnsaflsvirkjunum og það talinn kostur að hafa vatnsaflið til að vinna með vindorkunni.

Við þurfum náttúrulega að spyrja okkur að því hvernig ætlum við að fara í orkuskipti hér á Austurlandi sem annars staðar á landinu ef við ætlum ekki að nýta okkur endurnýjanlega orku í meiri mæli. Hvernig á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis ef ekki með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er þær spurningar sem þarf þá að svara og rökstyðja.“

Mynd: Orkusalan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.