Bættar samgöngur forgangsmál í íþróttastarfi

Starfshópur um íþróttir og tómstundir á vegum samstarfsnefndar um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi telur bættar samgöngur forsendu fyrir öflugu félagsstarfi. Íbúar þurfi að hafa aðgang að tómstundum víðar en bara í sinni heimabyggð.

Þetta kemur fram í minnisblaði starfshópsins, en sjö starfshópar tóku fyrir mismunandi málefni vegna mögulegrar sameiningar Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Hópurinn leggur mesta áherslu á samgöngur og gengur svo langt að segja að batni þær ekki fljótt verði lítill ávinningur af sameiningunni.

Staðan í íþróttum og tómstundum er almennt talin ágæt, þótt framboðið sé takmarkaðra utan Fljótsdalshéraðs. Bent er á að áskorun sé að takast á við brottfall, einkum þar sem erfitt er að halda úti starfi vegna fámennis.

Nokkur óformleg samvinna sé þegar til milli sveitarfélaga og félaga og almennt vel tekið á fólki sem fari á milli. Sameining dragi var úr henni en ólíklegt sé að hún aukist án þess að samgöngur verði bættar. Ýta verði undir samvinnu, meðal annars með samnýtingu þjálfara og styðja við foreldra til að fara með börn sín í tómstundastarf milli svæða, svo sem með akstursstyrkjum. Eins þurfi sérstaklega að styðja við börn af erlendum uppruna.

Bent er á að mikill rekstrarkostnaður sé í málaflokknum. Sameinað sveitarfélag taki við fimm íþróttahúsum og þremur sundlaugum. Sum þessara mannvirkja þurfi á talsverðu viðhaldi að halda. Því er nauðsynlegt að forgangsraða í uppbyggingu og viðhaldi.

Hvatt er til þess að íþróttafélög haldi áfram sérstöðu sinni og varast að miðstýrin verði of mikil.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar