Orkumálinn 2024

Bæjarstjórn veiti ríkisstofnunum aðhald

Hagsmunagæsla fyrir hönd íbúa gagnvart ríkinu og ríkisstofnunum er meðal þess sem lögð er áhersla á í málefnasamningi nýs meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og óháðra í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Samningurinn var kynntur og undirritaður í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum í dag.

„Við tökum það alvarlega að vera hagsmunagæsluaðili íbúa. Við viljum að rödd okkar heyrist skýrt og greinilega á opinberum vettvangi í samskiptum við ríkisvaldið, stofnanir ríkisins og alla þá aðila sem veita okkur þjónustu.

Það er ábyrgð okkar að sýna þeim aðhald og það gerum við best með að viðhalda samtalinu,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks og nýr forseti bæjarstjórnar.

Í málefnasamningnum segir að barist verði fyrir bættum samgöngum, eflingu skógræktar, endurbótum á dreifikerfi raforku, bættum fjarskiptum, endurbótum á dreifikerfi raforku og auknu umferðaröryggi ásamt sanngjarnri dreifingu fjármagns og fjölgun opinberra starfa í sveitarfélaginu.

Áfram aðhald í fjármálum

Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks og óháðra sem verður formaður bæjarráðs, sagði að áfram yrði sýnd aðhald og skynsemi við meðferð fjármála. Það svigrúm sem myndast verði nýtt í uppbyggingu og framgang atvinnulífs.

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður á morgun og verður þar kosið í nefndir. Samkvæmt samkomulaginu er þeim ætlað að endurskoða verkferla sína. Þá verður stofnaður starfshópur í haust til að fara yfir samþykktir þeirra og verkefni.

Fráveitan í höndum HEF

Fráveitumál voru ofarlega á baugi fyrir kosningar. Í samningnum er talað um að bæta fráveitu út frá áætlunum Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) í samræmi við lög og reglur. Nánari útfærsla er falin stjórn og starfsmönnum HEF þótt endanlegar ákvarðanir komi fyrir bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fær formann stjórnarinnar.

Leikskólamál voru einnig mikið rædd. Kanna á grundvöll þess að foreldrar 1-2 ára barna geti valið milli dagforeldra, leikskóla eða nærfjölskyldu við að annast barnið, þannig að daggjöld fylgi hverju barni sem ekki nýtir dagvistunarpláss. Þá verði auknar niðurgreiðslur til foreldra sem nýta þjónustu dagforeldra.

Eins verður leitað leiða, í samráði við stjórnendur og starfsfólk, til að leikskólar geti veitt öllum umsækjendum barna á aldrinum 12-18 mánaða leikskólapláss.

Ekki er um að ræða breytingar í forgangsröðun framkvæmda. Lokið verði uppbyggingu við leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ og byggður fimleikasalur við íþróttahúsið á Egilsstöðum.

Endurskoða á aðalskipulag, endurskoða og ljúka deiliskipulagi fyrir íbúa og atvinnusvæði. Ræða á við Vegagerðina um bætt fyrirkomulag vetrarþjónustu í dreifbýli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.