Bæði ME og VA komust áfram í Gettu betur

Bæði Menntaskólinn á Egilsstöðum (ME) og Verkmenntaskóli Austurlands (VA) komust áfram í spurningakeppninni Gettu betur fyrir og um helgina.

„Lið Menntaskólans á Egilsstöðum vann lið Framhaldsskólans í Mosfellsbæ (FMOS) í fyrstu umferð Gettu betur og er því komið áfram í 16 liða úrslit. Næsta viðureign fer fram miðvikudaginn 19. janúar í streymi á ruv.is. ME mætir þá Menntaskólanum við Hamrahlíð,“ segir á vefsíðu menntaskólans.

Þessi keppni ME og FMOS varð söguleg þar sem einn keppenda FMOS reyndist vera nemandi í Kvennaskólanum. Hafði sá einfaldlega svarað auglýsingu um að vera með í liðinu og síðan mætt í keppnina þegar hann var beðinn um það.

Fjallað er um málið á visir.is þar sem vitnað er í þennan nemenda sem segir: „Ég held að þau hafi verið í algjörum vandræðum með að finna einhvern í liðið.“ Málið er til rannsóknar innan Ríkisútvarpsins.

VA vann síðan öruggan sigur í gærkvöldi gegn Menntaskólanum að Laugarvatni í fyrstu umferð spurningakeppninnar Gettu-betur.

„Eftir hraðaspurningar var staðan 11-8 fyrir VA og í bjölluspurningunum kom hvert rétta svarið á fætur öðru og lauk keppninni með öruggum sigri, 23-8. VA fer því áfram í aðra umferð keppninnar og mun keppa við Borgarholtsskóla miðvikudaginn 19. janúar í beinni útsendingu á Rás 2. Það lið sem sigrar þá keppni kemst áfram í sjónvarpshluta keppninnar,“ segir á vefsíðunni.

Mynd: me.is. Þau sem keppa fyrir ME eru Heiðdís Jóna Grétarsdóttir, Gunnar Einarsson og Unnar Aðalsteinsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.