Baðhúsið við Óbyggðasetrið verður endurbyggt

„Við munum endurbyggja baðhúsið og ég vona að það verði komið aftur í gagnið um miðjan júlí,“ segir Steingrímur (Denni) Karlsson eigandi Óbyggðasetursins en baðhús þess brann um helgina eins og fram hefur komið í fréttum.


Denni segir að hann sé að bíða eftir að tryggingarfélagið ljúki sinni úttekt á brunanum en eftir það fari vinnan við endurbygginguna á fullt.

„Ég er núna að tryggja mér smiði til verksins ásamt því að afla mér efniviðar,“ segir Denni. „Hvað efnið varðar er ætlunin að nota það sama og gaf baðhúsinu sérstöðu eins og til dæmis panel, rekavið, tunnulok og fleira. Ég á ekki von á að það verði vandamál enda á ég góða að.“

Fram kemur í máli Denna að baðhúsið hafi notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna sem komið hafa á Óbyggðasetrið.

„Þetta hús hefur vakið athygli erlendis og það hafa verið skrifaðar greinar um það í erlend blöð og tímarit,“ segir Denni. „Íslensku ferðamennirnir sem komu á síðasta ári voru einnig mjög hrifnir af því að geta farið í laugina og gufubað á staðnum.“

Denni segir að hann sé bjartsýnn á sumarið og nefnir að íslenskir ferðamenn séu nú að bóka komu sína í meira mæli og með lengri fyrirvara en í fyrravor.

Aðspurður um hvort hann geti lagt mat á tjónið sem varð af brunanum segir Denni að hann geti ekki nákvæmlega sagt til um það á þessari stundu. „En það er ljóst að um töluvert tjón er að ræða,“ segir Denni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.