Baðstað Vakar við Urriðavatn ætlað að verða segull fyrir ferðamenn

Baðstaður við Urriðavatn á Fljótsdalshéraði verður opnaður í júní 2019 ef allt gengur að óskum. Vonast er til að tugir þúsunda gesta sæki staðinn árlega sem efla muni atvinnulíf á Fljótsdalshéraði.

Verkefnið hefur til þessa verið kallað Ylströndin en í dag var kynnt til sögunnar vörumerkið „Vök Baths.“ Heitið er sótt í vakir sem mynduðust á Urriðavatni sem urðu tilefni í þjóðsögur og síðar þess að látið var á það reyna að bora þar eftir heitu vatni á svæði sem áður var talið kalt með góðum árangri.

Húsfyllir var á kynningu á verkefninu í Þingmúla í Valaskjálf í hádeginu í dag. Ívar Ingimarsson, Hilmar Gunnlaugsson og Hafliði Hafliðason hafa farið fyrir verkefninu fyrir hönd heimamanna þótt hugmyndin hafi upphaflega orðið til hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella sem nýtir Urriðavatnssvæðið.

Baðhús og veitingastaður

Tæp tvö ár eru síðan Jarðböðin í Mývatnssveit, sem að hluta eru í eigu Bláa lónsins, komu inn sem hluthafar að verkefninu. Eftir það fóru hjólin að snúast en um leið var baðstaðurinn hannaður upp á nýtt.

Teikningar að baðhúsi Vakar voru kynnt á fundinum í dag en sömu arkitektar eru að baki henni og Bláa lóninu. Gert er ráð fyrir að nota efni af svæðinu, panel innan úr Fljótsdal og einingar frá verksmiðju VHE í Fellabæ.

Gert er ráð fyrir að aðalbaðhúsið sjálft verði hulið með torfi og falli þannig inn í landslagið. Út frá því ganga síðan nokkrar laugar, eða vakir. Húsið sjálf verður tvískipt, annars vegar baðsvæði og búningsklefar, hins vegar veitingasal þar sem afurðir af svæðinu verði í fyrirrúmi. Þá er unnið með hugmyndir um að gestir geti sjálfir blandað 75 gráðu heitu vatninu út í mat sinn.

Framkvæmd upp á milljarð

Áætlanir gera ráð fyrir að staðurinn opni í júní 2019. Á næstu vikum skýrist hvort það gangi eftir. Steingrímur Birgisson frá Jarðböðunum sagði að frekar yrði verkefninu frestað um ár en opna að hausti til.

Í máli hans kom fram að áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er talinn slaga upp í eitt milljarð króna. Þess er vænst að 50 þúsund gestir sæki staðinn fyrsta heila árið í rekstri og til verði 10 ný störf. Talsmenn verkefnisins lögðu í dag áherslu á að mesti ávinningurinn fælist í afleiddum störfum á svæðinu.

„Miðað við áhugann hér inni hlýtur fólk að gera sér grein fyrir hvað verkefni af þessari stærðargráðu mun gera fyrir samfélag eins og okkar. Ég er spennt fyrir að sjá margföldunaráhrifin, afleiddu störfin og tækifærin sem koma í kjölfarið,“ sagði Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri verkefnisins.

Fjárfestar höfðu litla trú á Austurlandi

Verkefnið hefur verið í gerjun í meira en áratug. Hilmar sagði að verkefnið hefði tekið lengri tíma en vonast var til í fyrstu. Hann minntist á að fjárfestar hefðu verið tregir til og álitið Austurland svæði sem ekki gæfi góða ávöxtun.

Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, sagðist trúa að baðhús Vakar myndi gera Austurland að enn áhugaverðari áfangastað.

„Til að dreifa ferðamönnum þarf að vera afþreying til staðar. Til að svo geti komið þarf að fjárfesta og í það þarf kjark. Saga Hilmars um viðbrögð lánastofnana er bæði brosleg og sorgleg. Ég sé fyrir mér að Vök geti orðið brimbrjótur í að ná þessu svæði virkilega inn á kortið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar