Austfirskt byggingarefni í útrás? Á að bæta húsnæði og lækka byggingakostnað

Múrverk Austurlands (MVA) hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í þróun nýrra innveggja undir vörumerkinu Thermo Tec. Fyrstu veggirnir hafa verið reistir hérlendis en þegar er byrjað að skoða möguleika á sölu veggjanna til Noregs. Efnið drekkur vel í sig hljóð og á að vera laust við myglu.

„Þetta á að bæta húsnæði og lækka byggingakostnað,“ segir Stefán Þór Vignisson, stjórnarformaður MVA og einn eigenda Thermo Tec.

Þróunin byrjaði á því að MVA fékk umboð fyrir léttsteypu frá ítalska fyrirtækinu i-Tec. Í gegnum prime-vél og síló er plastkúlum blandað út í steypuna þannig að áferð myndast utan um plastkúlurnar svo þær sjúga ekki í sig vatn. Það að hvorki plastið né sementsveggurinn taki í sig vatn er grunnurinn í að efnið á að vera myglufrítt. Auk þess sé kornadreifingin í steypunni góð.

„Myglan þrífst ekki í sementi heldur í málningunni utan frá. Síðan hefur pappinn utan á gifsplötunum sem víða eru notaðar myglað þannig að fyrir okkur vakti að finna eitthvað nýtt sem virkaði,“ segir Stefán.

Endurvinnanlegir veggir

Stefán segir Thermo Tec veggina þýða að unnið sé úr innlendum efnum, þeir séu betri fyrir umhverfið, bæti hljóðvist í húsum og fljótlegra sé að setja þá upp.

„Við erum fimm sinnum fljótari að setja upp þessa veggi en gifsvegi. Þetta er efni sem við getum notað alls staðar, hvort sem er á baðherbergi eða gangi. Við erum því, að við teljum, með betri vöru á sama verði en fljótlegri uppsetningu sem þýðir lægra verð til kúnnans á endanum. Það þarf heldur ekki að bíða eftir rafvirkja eða pípara, þeir fræsa sínar lagnir í eftir á.

Við höfum þróað mótin sem einingarnar eru steyptar í. Draumurinn er að framleiða í ákveðnum lengdum því lofthæð í húsum er stöðluð. Þannig verður minna rusl eftir þegar veggirnir eru tilbúnir sem lækkar kostnað við förgun. Við eigum að geta mulið veggina niður og endurnýtt allt efnið. Við viljum reyna að ná Svansvottun á veggina.

Hljóðvist í húsum með Thermo Tec veggjum er hrikalega góð. Það bergmálar ekki í þeim eins og í gifsinu. Við eigum eftir að mæla það betur en við erum til dæmis að skoða möguleika á að framleiða hljóðveggi í hótel.

Efnið er létt og því ódýrt í flutningi. Það væri snilld að geta framleitt milliveggi á Íslandi því í dag eru 90% þeirra fluttir inn.“

Noregsmarkaður í nánd?

Stefán segir þróun efnisins enn í gangi, markmiðið sé að sem minnst af loftbólum sé í yfirborðinu þannig að ódýrt sé að sparsla vegginn. Verksmiðja Thermo Tec er staðsett í Hafnarfirði til að vera nær markaðinum. Til þessa hafa verið seldir um 1000 fermetrar af efninu, mest eystra. Efnið var notað í nýtt uppsjávarfrystihús Eskju, sem opnað var fyrir um ári, og nýtt einbýlishús á Héraði. Stefán segir rætt við hönnuði, verkfræðinga og byggingaverktaka til að kynna efnið.

En veggir Thermo Tec hafa þegar vakið athygli utan landsteinanna. „Við erum komnir langt með að selja veggina til stórs fyrirtækis í Noregi. Ef það gengur eftir getum við allt eins haft verksmiðjuna á Egilsstöðum og í Hafnarfirði. Héðan eru gríðarlega góðar flutningsleiðir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.