Austfirskir lögreglumenn skora á ráðherra að hraða úttekt á ríkislögreglustjóra

Lögreglufélag Austurlands skorar á nýjan dómsmálaráðherra að koma málefnum lögreglunnar í landinu í „ásættanlegan farveg sem allra fyrst.“ Félagið leggst um leið gegn hugmyndum um að lögregluumdæmin í landinu verði öll sameinuð í eitt.

Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér í morgun. Þar er lýst stuðning við ályktun Landssambands lögreglumanna frá því um helgina þar sem hvatt er til stjórnsýsluúttektar á embætti ríkislögreglustjóra. Félagið telur að hraða eigi úttektinni eins og hægt er.

Landssambandið fagnaði helgina ákvörðun ráðherra um að gera alhliða úttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Í ályktun Landssambands er bent á að hluti óánægju lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættisins beinist að því að fatamál lögreglunnar hafi verið í ólestri.

Í ályktun Lögreglufélags Austurlands er minnt á að eftir aðalfund þess í fyrra hafi það sent frá sér áskorun um fatamálunum yrði komið í lag sem fyrst. Þau hefðu þá verið í ólestri í mörg ár og séu enn.

Ekkert samræmi í fatnaðinum

Hjalti Bergmar Axelsson, formaður félagsins, segir að nokkur ár séu liðin síðan samningur lögreglunnar í landinu við 66°Norður hafi runnið út. Síðan hafi enginn sameiginlegur samningur um fatnað lögreglunnar verið í gildi, embættin hafi hvert um sig samið við birgja og bjargað sér eftir því sem hægt hefur verið.

Fyrst eftir að samningurinn rann út var fatnaðurinn endurnýjaður af lager sem til var en um tíma fengust engin föt fyrir lögreglumenn. Embætti lögreglustjórans á Austurlandi hafi síðan keypt bæði einkennis- og öryggisfatnað af birgja í Reykjavík, líkt og fleiri embætti.

„Um tíma var það þannig að einhverjir höfðu verið hyggnir og pantað sér þrjár skyrtur þótt þeir þyrftu ekki nema tvær yfir árið meðan aðrir áttu engar. Við fáum föt en þegar lögreglufólk úr mismunandi umdæmum hittist kemur í ljós að það er ekkert samræmi í fatnaðinum,“ segir Hjalti.

Hann segir að undirbúningur að útboði hafi verið kominn á rekspöl í fyrra en síðan hafi ekkert til þess spurst. Ríkiskaup sjá um útboðið en í samráði við Landssamband lögreglumanna og ríkislögreglustjóra. „Það var stofnað sem samræmingarembætti,“ bendir Hjalti á.

Sameiningarhugmyndir ótímabærar

Í ályktun Lögreglufélags Austurlands er einnig mótmælt hugmynd sem Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, varpaði fram í fréttum í gær um að lögregluumdæmin í landinu yrðu öll sameinuð í eitt til að slá á sundrungu innan íslensku lögreglunnar. Í ályktuninni er hugmyndin sögð ótímabær og til þess fallin að afvegaleiða umræðuna. „Það er nýbúið að sameina umdæmi, það var gert 2015. Við teljum ótímabært að velta þessu fyrir sér í þessu samhengi,“ segir Hjalti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.